Innlent

Skaðvaldsskiltið fært

Talsvert minni líkur eru nú á því en áður að þeir sem eiga leið um Hálsabraut, skemmi bílinn sinn. Á mótum Krókháls og Hálsabrautar hefur staðið akreinaskilti undanfarin ár sem hefur líklega eyðilagt bíla fyrir margar milljónir króna eins og Stöð 2 greindi frá á dögunum. Úr þessu var hins vegar bætt í gær þegar skiltið var fært u.þ.b. einum metra aftar.  Umferð um Hálsabrautina hefur verið að aukast gríðarlega undanfarin ár, bæði með tilkomu ÁTVR í hverfið og vegna nýrra vegatenginga, m.a. upp á Grafarholt. Starfsfólk Stöðvar 2 hefur undanfarin ár verið að fylgjast með þessu akreinaskilti á mótum Hálsabrautar og Krókháls. Það hefur tekið hliðar eða frambretti af bílum, svona á að giska tvisvar eða þrisvar í mánuði, og alltaf hefur það verið endurreist á sama stað. Úr þessu hefur nú verið bætt með því að flytja skiltið um einum metra aftar eins og áður sagði. Núna þarf talsverða lagni til þess að keyra utan í það. Ekki þar fyrir að við vitum að það er fullt af lögnu fólki í umferðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×