Innlent

Enski boltinn á Bolungarvík

Útsendingar sjónvarpsstöðvarinnar Skjás eins munu nást í Bolungarvík í fyrri hluta október ef allt gengur að óskum að sögn Víðis Jónssonar, rafeindavirkja í bænum. Fréttavefur Bæjarins besta greinir frá þessu í dag. Áhugasamir menn þar í bæ, væntanlega með töluverðan knattspyrnuáhuga, safna nú fyrir sendi til að ná útsendingum stöðvarinnar en Skjár einn bauð Bolvíkingum að setja upp sendi á staðnum ef heimamenn myndu kosta búnaðinn til hálfs. Áætlaður er að sendirinn kosti 1.800 þúsund krónur og koma því 900 þúsund í hlut heimamanna. Aðspurður segist Víðir ekki hafa nákvæmar tölur yfir gang söfnunarinnar. „Þetta hefur gengið þokkalega en vantar meiri kraft til að klára dæmið. Við gáfum okkur tíma til 20. ágúst til að ljúka þessu. Fólk er að taka við sér eftir sumarfrí og ég á von á góðum undirtektum á lokasprettinum“, segir Víðir í samtali við Bæjarins besta. Víðir segir taka 4-6 vikur að fá sendi en hann er pantaður frá Ítalíu. „Það er barist við að fá þessi mál á hreint til að hægt verði að hefjast handa sem fyrst. En ef allt gengur eftir ættu fótboltafíklarnir ekki að þurfa að missa af miklu,“ segir Víðir Jónsson, rafeindavirki í Bolungarvík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×