Innlent

Fellibylur veldur hitabylgju

"Þetta er hitabylgja sem er komin hingað og verður næstu daga," segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. "Það hafa áður komið hitabylgjur hingað til lands en þessi gæti orðið óvenjumikil." Hitinn náði 26 gráðum í Skaftafelli á hádegi í gær en hitinn mældist víða vel yfir tuttugu gráður. Í höfuðborginni mældist hitinn rúmlega tuttugu gráður og komst nærri hitameti ágústmánaðar í borginni. Mikill hiti mældist víða á hálendinu, til að mynda fór hitinn í 22 gráður við Kárahnjúka. Björn Sævar býst við hlýindum að minnsta kosti fram á sunnudag og telur að álíka hlýtt verði í veðri næstu daga og var í gær. Björn Sævar býst þó við sólríkari degi í dag en í gær. Búast má við hlýindum um allt land en Björn Sævar segir hitabylgjuna smám saman að færast yfir landið. Svalara verði þó á annesjum þar sem þokulofts gæti, sérstaklega austanlands. Björn Sævar segir hlýja loftið berast suðaustan úr hafi. Hluti þess hafi borist með leifum af fellibylnum Alex sem sitji vestan Írlands og dæli hlýju lofti í norðurátt yfir Atlantshafið hingað til lands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×