Innlent

Skattabilið verður minnkað

Ríkisstjórnin ætlar að minnka bilið milli þeirra sem greiða skatt af fjármagni og þeirra sem greiða skatt af launatekjum sínum segir Halldór Ásgrímsson, starfandi forsætisráðherra. Íslenskir skattgreiðendur töldu fram nærri sextíu og fjóra milljarða króna í fjármagnstekjur í framtölum fyrir árið í fyrra. Það er fjörutíu prósent meira en árið áður. Skattur af fjármagnstekjum og arði nemur tíu prósentum á meðan skattur af launatekjum er um og yfir fjörutíu prósent. Þetta er umdeilt, margir tala um að auðmenn hagnist helst á þessu fyrirkomulagi eða í það minnsta ekki þeir sem minnst hafi á milli handanna þar sem þeir eigi ekki fé til að verja í hlutafjárkaup. Venjulegir launamenn eigi ekki annars kost en að greiða stóran hluta tekna sinna í sameiginlegan sjóð á meðan þeir ríku verði ríkari. Aðrir benda hins vegar á að lágt skatthlutfall hafi leyst úr læðingi viðskipti með hlutabréf sem ella hefðu ekki orðið og stuðlað að því að fjársterkir Íslendingar borgi skatta hér í stað þess að flýja land. Þá er einnig bent á að fleiri íslenskar fjölskyldur hafi nýtt sér þessa leið til að spara. Lausnin að margra mati, og í raun allra þeirra sérfræðinga sem fréttastofan hefur rætt við, er ekki að hækka fjármagnstekjuskatt heldur lækka tekjuskatt - nokkuð sem ríkisstjórnin hefur þegar lofað. Halldór Ásgrímmson, starfandi forsætisráðherra, segir það ætlun stjórnarinnar að lækka tekjuskatt einstaklinga á næstu árum vegna þess að þörf sé á því. Þetta mun koma betur í ljós í haust að sögn Halldórs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×