Innlent

Ferðamenn verða að snúa við

"Við gerum ekki ráð fyrir að hleypa almennri umferð um brúna yfir Jökuldalsá fyrr en í lok mánaðarins," segir Sigurður St. Arnalds, almannatengslafulltrúi Landsvirkjunar. Gríðarmikil umferð ferðamanna og forvitinna heimamanna hefur verið að framkvæmdasvæðinu við Kárahnjúka í allt sumar og hafa margir notað sér hringveg þann sem hægt hefur verið að fara um svæðið hingað til. Þá er ekið upp úr Fljótsdal inn að Kárahnjúkum og þaðan keyrt niður á þjóðveginn í Jökuldal. Vegna vatnavaxtanna í Jökuldalsá hefur orðið að loka einu brúnni á framkvæmdasvæðinu og því verða ferðamenn sem þangað sækja nú að snúa við ætli þeir sér að skoða virkjunarframkvæmdirnar. Sigurður segir að ekki verði farið í lagfæringar á brúnni fyrr en öll hætta á frekari vatnavöxtum sé úr sögunni. "Það verður að líkindum ekki fyrr en í lok mánaðarins. Þeir sem hug hafa á og hafa jeppa til umráða geta enn farið aðra leið um Hrafnkelsdal en sá slóði er eingöngu fær stærri bifreiðum. Að öðrum kosti verður fólk að sætta sig við að fara sömu leið til baka." Brúin við framkvæmdasvæðið hefur tvívegis farið undir vatn að undanförnu. Hún er ekki illa skemmd en þarfnast lagfæringa engu að síður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×