Innlent

Víkja ekki fyrir sjúkrabílum

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir það vera orðið nokkuð áberandi vandamál að bílstjórar víki ekki þegar sjúkra- og lögreglubílar gefi merki um slíkt með blikkandi ljósum og sírenum. "Menn þurfa að fara að skoða það miklu betur hvað þessi ljós þýði. Þetta er hvorki skemmtun eða skreyting," segir Ólafur Helgi. "Menn taka ekki nógu vel eftir þessu," segir hann. "Við höfum lent í því á þjóðvegunum að það er oft eins og menn átti sig ekki á þvi að það sé forgangsakstur á leiðinni og þegar mikil umferð er þá víkja menn gjarnan ekki nægilega greiðlega;" segir Ólafur Helgi. Hjá slökkviliðinu í Reykjavík segist Þórir Steinarsson vaktstjóri ekki hafa orðið var við minnkandi virðingu fólks fyrir neyðarljósum. Hann segir að með betri hljóðeinangrun og hljómflutningstækjum sé í mörgum tilvikum orðið erfiðara fyrir ökumenn að taka eftir merkjum frá neyðarbílum. Þórir segir hins vegar að sjúkraflutningamenn hafi orðið varir við að gangandi vegfarendur í miðbænum um helgar séu ekki eins tillitssamir í garð sjúkraflutningamanna og ökutækja þeirra eins og áður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×