Innlent

Margir gripir fundist að Hólum

Um tíu þúsund gripir hafa fundist við fornleifauppgröft við Hóla í Hjaltadal í sumar. Sjötíu fornleifafræðingar víða að úr heiminum sóttu ráðstefnu um Hólarannsóknina um helgina. Þetta er þriðja sumar Hólarannsóknar og hefur uppgröfturinn fætt af sér ýmsar merkar niðurstöður. Ragnheiður Traustadóttir, stjórnandi Hólarannsóknar, segir helstu niðurstöður í sumar vera að komið sé niður á prenthús frá 16. öld og einnig hafi fundist annað hús frá 17. öld. Byggðin á Hólum sé því farin að skýrast auk þess sem um 10 þúsund gripir hafi fundist eingöngu í sumar. Ragnheiður telur einsýnt að byggð á Hólum sé í raun mun eldri en áður hafði verið talið. Þá skoðun byggir hún á niðurstöðum við skálann sem fannst fyrir tveimur árum. Hún segir að þar sé að finna mannvistarleifar frá árinu 1106 og líklegt sé að byggðina megi rekja allt að landnámi. Uppgreftri við Hóla er lokið en enn á eftir að grafa í viku við Kolkuósa skammt frá Hólum. Ragnheiður segir að menn séu að komast niður á nokkur hús við Kolkuós og að spennandi verði að sjá hvað þar komi í ljós. Hún telur tilvist Kolkuóss gríðarlega mikilvæga fyrir tilvist Hólastóls og sé í raun lykillinn að tilvist hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×