Innlent

Gay Pride gangan í dag

Búist er við um 20 þúsund manns í miðbæ Reykjavíkur í dag þegar gleðiganga Hinsegin daga fer niður Laugaveginn. Hinsegin dagar, eða Gay Pride, eru haldnir hátíðlegir víða um heim um þetta leiti árs. Hápunkturinn hér á landi er Gleðigangan niður Laugaveg, sem er gengin bæði til að fagna öryggi og frelsi homma og lesbía, en einnig til að sýna samstöðu með samkynhneigðum í þeim ríkjum heims þar sem fólk er kúgað og því misþyrmt vegna kynhneigðar sinnar. Gangan, sem hefst klukkan þrjú, er jafnan full af litum, gleði og fjöri. Tveimur tímum áður, eða klukkan eitt, byrjar fólk að raða sér í gönguna. Hátíðardagskrá hefst svo í Lækjargötu korter yfir fjögur. Gangan hefur alltaf verið mjög vel sótt. Í fyrra mættu milli fimmtán og tuttugu þúsund manns í miðbæinn til að fylgjast með, þrátt fyrir úrhellisrigningu. Aðeins hefur ringt í morgun en vonir eru bundnar við að það haldist þurrt eftir hádegi. Mikil vinna hefur verið lögð í búninga og skrautvagna, og hefur sérstakt verkstæði verið opið síðastliðna viku. Verið var að leggja síðust hönd á atriðin í hádeginu. Katrín Jónsdóttir er göngustjóri, hún segir að yfir 20 atriði séu í göngunni og búist sé við fjölda áhorfenda og þátttakenda. Í fyrra hafi þeir verið um 20 þúsund þrátt fyrir rigningu og árin þar áður hafi þeir verið um 30 þúsund. Skipuleggjendur göngunnar séu því bjartsýnir á mjög góða þátttöku í ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×