Innlent

Útsendingar RÚV lágu niðri

Útsendingar Ríkisútvarpsins lágu niðri í stundarfjórðung á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Deildarstjóri hljóðdeildar segir neyðaráætlun hafa farið í gang. Mönnum brá í brún, bæði hlustendum og starfsmönnum, þegar báðar rásir RÚV þögnuðu skyndilega rétt fyrir níufréttir í morgun. Bilun í spennugjafa í útsendingarborði Rásar 2 olli því að útsendingar beggja rása Ríkisútvarpsins féllu niður í morgun. Það eru hins vegar mörg hljóðver í húsinu og þau voru ekki öll rafmagnslaus. Því var gripið til þess ráðs að flytja starfsfólk í önnur hljóðver, og þau tengd inn á dreifikerfið, í staðinn fyrir þau sem voru dauð. Útsendingar á langbylgju og landsbyggðinni hófust því eftir um fimm mínútur. Hins vegar tók um fimmtán mínútur að koma á FM-sendingum á höfuðborgarsvæðinu. Runólfur Þorláksson, deildarstjóri hljóðdeildar Ríkisútvarpsins, segir að vissulega bregði mönnum þegar svona gerist. Hins vegar séu til margreyndar öryggisráðstafanir sem tryggi að jafnvel þótt allt fari á versta veg sé með einum eða öðrum hætti hægt að hefja útsendingar á nýjan leik eftir tiltölulega skamman tíma. Það sé m.a.s. hægt þótt allt rafmagn færi af húsinu því neyðarbúnaðurinn er rafhlöðudrifinn. Í allra versta falli er svo mögulegt að komast inn á dreifikerfi RÚV annars staðar en í húsinu í Efstaleiti segir Runólfur.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×