Menning

Draumabíll Skjaldar Eyfjörð

"Mig langar í rafmagnsbíl af gerðinni Smart, svona eins og þeir hjá World Class keyra um á. Mér finnst þessir bílar geðveikt flottir og svo finnst mér frábært að þeir séu knúnir áfram af rafmagni. Þeir eru eins og Nokia símarnir, þú getur alltaf keypt nýjan front á þá og það finnst mér líka mjög sniðugt. Ég hef verið að skoða þessa bíla á netinu og held reyndar að þeir séu ekki fluttir hingað til landsins. Ég veit bara að þeir eru framleiddir í Þýskalandi og það er hægt að fá þá með blæju og öllu." Skjöldur á ekki bíl og segir það ekki á stefnuskránni að fá sér slíkan þar sem hann sé hugsanlega að flytja til New York. "Ég flyt jafnvel á næstunni og ætla því hvorki að kaupa mér bíl né íbúð. En ég bý niðri í bæ og þar væri fullkomið að keyra um á svona Smart bíl þar sem hann er bæði lítill og stuttur og svo er auðveldlega hægt að leggja honum hvar sem er. Hann er góður í styttri vegalengdir og þar sem ég fer ekki mikið út á land myndi ég hvort sem er ekki fara á honum því ég er vanur að taka annaðhvort rútu eða flugvél. Hérna innanbæjar er ég annars duglegur að labba, nota hjólið mitt og hlaupahjólið og svo sníki ég mér stundum far," segir hann. "Ég fíla ekki bensínbíla og finnst tvímælalaust að við ættum að nýta rafmagnið í staðinn fyrir að menga andrúmsloftið með bensíni. Af hverju ekki að nota alla þessa orku sem við höfum hérna. Mér finnst það engin spurning og svo er ekkert mál að hlaða þessa rafmagnsbíla á nóttunni meðan maður sefur," segir hann. Í dag tekur Skjöldur þátt í Gay Pride deginum og mun hann spila stórt hlutverk í hátíðarhöldunum. "Ég verð ekki í skrúðgöngunni þetta árið heldur verð ég á Ingólfstorgi þar sem ég mun syngja Gay Pride lagið í ár. Dagurinn leggst vel í mig og eins og venjulega held ég að hann verði mjög skemmtilegur," segir hann. halldora@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×