Innlent

Tólf ára á Ólympíuleikana

Tólf ára gömul íslensk stúlka, Esther Viktoría Ragnarsdóttir, er á leiðinni á Ólympíuleikana í Aþenu nú í ágúst. Esther vann myndasamkeppnina „Ólympíuleikar ímyndunaraflsins“ sem haldin var á vegum Visa International fyrr á þessu ári en tuttugu og níu börn frá sautján löndum fá að fara á Ólympíluleikana í fylgd forráðamanns í kjölfar þátttöku sinnar í keppninni.       Nærri ein milljón barna á aldrinum 9-13 ára tók að þessu sinni þátt í Ólympíuleikum ímyndunaraflsins en keppnin hefur verið haldin í fjölmörgum löndum í aðdraganda Óympíuleikanna nokkur undanfarin skipti. Þema keppninnar í ár var „Hvernig geta Ólympíuleikarnir stuðlað að bættri framtíð?“ og var keppendum uppálagt að mála eða teikna mynd út frá því. Að þessu sinnu koma sigurvegararnir frá Brasilíu, Kanada, Kína, Grikkandi, Íslandi , Ítalíu, Máritíus, Mexíkó, Noregi, Póllandi, Rúmeníu, Rússlandi, Sádí-Arabíu, Suður-Afríku, Tyrklandi, Bretlandi og Úkraínu. Sigurvegararnir munu dvelja í Aþenu meðan Ólympleikarnir fara þar fram, frá 12. til 17. ágúst. Meðal annars munu þeir verða viðstaddir opnun sýningar á myndum sem bárust í keppnina og athöfn þar sem meðlimir Alþjóðaólympíunefndarinnar og keppendur á leikunum munu veita sigurvegurunum verðlaunapeninga. Er það jafnframt fyrsta verðlaunaafhending Ólympíuleikanna í Aþenu. Sigurvegararnir munu einnig verða viðstaddir keppni í ýmsum íþróttagreinum, s.s. sundi kvenna og karla, fimleikum karla, bogfimi kvenna og strandblaki kvenna og karla. Einnig munu sigurvegararnir fara í skoðunarferðir í Aþenu og nágrenni hennar. Einn sigurvegaranna 29 verður valinn úr hópnum í Aþenu og honum boðið á Vetrarólympíuleikana í Torino á Ítalíu sem haldnir verða árið 2006. Áður hafa alls 175 ungir listamenn frá 35 löndum unnið ferð á Ólympíuleikana og Vetrarólympíuleikana í kjölfar þátttöku í Ólympíuleikum ímyndunaraflsins. Sigurvegarar keppninnar hafa verið viðstaddir Ólympíuleikana í Atlanta í Bandaríkjunum, Nagano í Japan, Sydney í Ástralíu og Vetrarólympíuleikana í Lillehammer í Noregi og Salt Lake City í Utah í Bandaríkjunum. Myndir sigurvegaranna munu verða til sýnis meðan á Ólympíuleikunum stendur í Polis-garðinum í miðborg Aþenu. Ljósmyndir af listaverkununum og fréttir af því sem á daga sigurvegaranna drífur í Aþenu verður unnt að nálgast á vefsíðu keppninnar www.visa.com/visakids



Fleiri fréttir

Sjá meira


×