Innlent

Grjót þeyttist við sprengingu

Möl og grjót þeyttust út á þjóðveginn á austanverðu Tjörnesi í nótt þegar sprengisérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengdu í grenndinni tuttugu og fimm kíló af mjög öflugu sprengiefni sem vegfarandi hafði rekist þar á í grennd við þjóðveginn. Tundurþræðir voru tengdir við sprengiefnið þannig að sprengihætta var mikil. Efnið var í sex borholum á 30 metra svæði í aðeins fimm metra fjarlægð frá veginum. Lögreglan á Þórshöfn kallaði því á aðstoð Landhelgisgæslunnar sem sendi tvo sprengisérfræðinga með þyrlu á vettvang í nótt. Þar sem sprengifimur vökvi hafði lekið úr sumum hylkjunum var ekki hættandi á að ná efninu úr holunum, heldur var nýju sprengiefni bætt við og allt sprengt samtímis til þess að allt sprengiefni kláraðist. Það var af gerðinni Pentrit sem er bæði viðkvæmt í meðförum og mjög öflugt. Veginum var lokað á meðan sprengisérfræðingarnir athöfnuðu sig og eftir sprenginguna þurfti að hreinsa hann áður en umferð var hleypt á að nýju.. Talið er að verktakar sem unnu þarna að vegagerð í fyrra hafi gleymt að tengja í holurnar sex þegar þeir voru að sprengja á svæðinu í fyrrasumar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×