Innlent

Deilt um bremsur flutningabílsins

Flutningabíllinn, sem ekið var út af brúnni yfir Laxá í Laxárdal á þriðjudag til að forðast árekstur við fjölskyldubifreið, stóðst ekki skoðun í apríl. Heimildir Fréttablaðsins segja að athugasemdir hafi verið gerðar við bremsubúnað flutningabílsins en því neitar eigandinn, Sigvaldi Arason, framkvæmdastjóri Borgarverks í Borgarnesi. "Eina athugasemdin sem gerð var varðaði pústkerfi flutningabílsins," segir Sigvaldi. Flutningabíllinn fékk endurskoðun í apríl og átti að koma með hann í skoðun aftur í maí. Að sögn Sigvalda var farið með bílinn í skoðun morguninn sem slysið varð. Þá hafi hins vegar verið svo mikið að gera í skoðuninni að ökumanni flutningabílsins hafi verið vísað frá með þeim tilmælum að mæta aftur eftir tvær vikur. Ekki náðist að fá þetta staðfest í gær. Að sögn Jóhannesar B. Björgvinssonar, lögregluvarðstjóra í Búðardal varð slysið með þeim hætti að flutningabílnum, hlöðnum fimmtán tonna malarhlassi, var ekið niður nokkuð bratta brekku sem liggur niður að einbreiðri brú. Á brúnni var fyrir Toyota Landcruiser jeppi sem kom úr gagnstæðri átt. Í jeppanum voru hjón með tvö ung börn. Ökumaður jeppans reyndi að bakka út af brúnni þegar hann gerði sér ljóst í hvað stefndi, en náði ekki að forða árekstrinum. Ökumaður flutningabílsins þykir þó hafa sýnt snarræði með því að sveigja út af brúnni. Flutningabíllinn skall framan á horn jeppans áður en hann fór í gegn um vegrið brúarinnar og steyptist niður í stórgrýti í árfarveginum. Fallið var um tíu metrar. Með ólíkindum þykir að ökumaður flutningabílsins hafi sloppið nær ómeiddur en hann var fluttur á slysadeild og útskrifaður samdægurs með minni háttar meiðsl. Fjölskyldan slapp við meiðsl. Að sögn Jóhannesar stendur rannsókn slyssins yfir. Meðal annars á eftir að taka skýrslu af manni sem varð vitni að árekstrinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×