Innlent

Heitasti júlí í sjö ár

Hiti hefur mælst yfir meðallagi í Reykjavík 28 mánuði í röð samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Í júlímánuði mældist meðalhiti 11,5 stig á celsíus sem er 0,9 gráðum meira en í meðalári. Á Akureyri mældist meðalhiti 12,6 stig , sem er 2,1 stigum meira en í meðalári, en þetta er hlýjasti júlímánuður á Akureyri í sjö ár. Sólskinsstundir mældust 203 í Reykjavík sem er 32 stundum yfir meðallagi en á Akureyri voru sólskinsstundir 213, sem er 55 stundum yfir meðallagi. Úrkoma í Reykjavík var þó nokkuð yfir meðallagi en aðeins 65 prósent af meðal júlímánuði á Akureyri. Elva Björk Jónasdóttir hjá Veðurstofu Íslands segir meðaltalið vera unnið miðað við tímabilið 1961 til 1990, en ef árin frá 1931 séu tekin í reikninginn hækki meðalhitastig eitthvað, en tímibilið frá 1931 til 1960 var mun hlýrra en næstu þrír áratugir. Elva segir þó ekki hægt að draga almennar ályktanir af veðurfari síðustu 28 mánaða, þetta sé fyrst og fremst niðurstöður úrvinnslu á fyrirliggjandi gögnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×