Innlent

Rekaldið hefur ekkert hreyfst

Lögregla er engu nær um það hvert líkið af Sri Ramawati hefur rekið eftir að Hákon Eydal varpaði því fyrir björg. Rekald, sem sett var út í gær til að kanna rekið, hefur ekkert hreyfst. Þegar björgunarsveitarmenn settu rekaldið út í gær fóru þeir eftir nákvæmum leiðbeiningum sem Hákon Eydal hefur gefið lögreglunni um hvar og hvernig hann losaði sig við líkið af fyrrverandi sambýliskonu sinni, Sri Rahmawati. Í sænskan póstpoka settu þeir leðurjakka og fleiri föt sem Hákon segir að Sri hafi verið í, ásamt grjóti og kúbeini, sem Hákon notaði þegar hann varð Sri að bana. Sjávarföll og aðstæður í gær voru eins og þegar Hákon sagðist hafa kastað líkinu fyrir björgin. Skömmu síðar flæddi yfir pokann, en hann hefur ekki hreyfst úr stað síðan, og er enn á sama stað í Hofsvík, með áfastri bauju svo hægt sé að fylgjast með honum. Ólíklegt verður að teljast að líkið af Sri hafi legið lengi í fjörunni. Spurningin er þá hvort þessi tilraun með rekaldið hafi mistekist, eða hvort Hákon hafi ekki sagt satt þegar hann lýsti því hvernig hann losaði sig við líkið. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að lögreglan muni gefa tilrauninni meiri tíma áður en ályktanir verða dregnar. Björgunarsveitarmenn muni fylgjast með rekaldinu áfram, enn um sinn. Fram hefur komið að faðir Hákons kom í íbúð hans kvöldið sem Sri var myrt. Ómar Smári segir að lögreglu gruni ekki föður hans um aðild að málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×