Innlent

Réðust í íbúð á fjórðu hæð

Tveir menn réðust inn í íbúð á fjórðu hæð í Grafarholti á laugardagsmorgun. Höfðu mennirnir orðið sér úti um stiga og komust þannig upp á svalir. Þaðan ruddust mennirnir inn á íbúa og réðust á þá með spörkum og barsmíðum. Mennirnir voru handteknir af lögreglunni í Reykjavík og færðir í fangageymslur en fólkið ætlaði að leita sér aðstoðar á slysadeild. 600 DVD diskum að verðmæti 300 þúsund var stolið úr videóleigu í Mosfellsbæ á laugardag. Rúða hafði verið brotin og þjófurinn náð að teygja sig inn og taka þrjár töskur sem innihéldu diskana. Alls voru 13 innbrot tilkynnt lögreglunni í Reykjavík um helgina, 18 þjófnaðir og 26 skemmdarverk. Á föstudagskvöldið var tilkynnt um að tjaldvagni hafi verið stolið frá heimili eiganda í Breiðholti. Hann fannst síðar þar sem hann hafði verið skilinn eftir á lóð sumarbústaðar við Suðurlandsveg skammt fyrir austan Hólmsá. Vörubretti var kastað inn um glugga í verslun við Stórhöfða aðfaranótt mánudags. Meðal annars var stolið þremur gíturum. Laust fyrir hádegi á mánudag var tilkynnt um innbrot í geymsluhúsnæði við Rafstöðvarveg. Þar var stolið 7 motorcross hjólum og hlífðarfatnaði samtals að verðmæti um 3 - 4 milljónir. Eitt hjólið fannst í Breiðholti, en hin eru ófundin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×