Menning

Hátíðir helgarinnar

Sandaragleði verður haldin á Hellissandi um helgina þar sem margt verður til skemmtunar. Varðeldur verður í Krossavík á föstudeginum og ball um kvöldið með hljómsveitinni Landi og sonum. Á laugardeginum verða gönguferðir, ratleikir, myndlistasýning, léttmessa, götugrill og dansleikir um kvöldið. Þetta og margt fleira á Sandaragleði um helgina, sjá nánar á heimasíðu Snæfellsbæjar, snb.is

Fjölskylduhátíð fullveldisins verður haldin í Hrísey um helgina. Þá segja Hríseyingar sig úr lögum við lýðveldið Ísland og bjóða alla velkomna í annað land og af því tilefni verða gefin út sérstök vegabréf sem allir hátíðargestir fá úthlutað. Laddi mætir ásamt félögum, fjöllistamaðurinn Mighty Gareth leikur listir sínar, Jói og Þóra úr stundinni okkar skemmta börnunum og fara með þau í sér Hríseyskar dráttarvélaferðir. Leiktækjagarður og skemmtidagskrá verður á hátíðarpalli og verða dansleikir bæði föstudags og laugardagskvöld. Veitingastaðirnir Brekka og Fossinn verða með lifandi músík. Allar nánari upplýsingar um dagskrá og ferjusiglingar á hrisey.is

Siglingadagar verða haldnir á Ísafirði dagana 16.-25. júlí. Siglingadagar hafa að markmiði að stefna saman áhugafólki um hverskonar siglingar jafnt hér á landi sem og erlendis. Námskeið verður haldið í sjókajaksiglingum hjá reyndustu kajakræðurum Íslands, keppt verður í sjókajaksiglingum þar sem ýmiskonar verkefni verða leyst meðan á keppni stendur, bátaball verður á bænum Ögri í Ísafjarðardjúpi, skemmtun verður haldin í einu elsta timburhúsi á Íslandi þar sem verðlaunaafhending fer fram, slidesmyndasýning verður haldin og margt fleira. Þá verður bátadagur fjölskyldunnar haldinn auk ráðstefna um siglingar milli Grænlands og Íslands.

Kátir dagar verða haldnir á Þórshöfn um helgina. Sundsprell verður í Verinu, hagyrðingar kveðast á í Þórsveri, keppt verður í dorgveiði, útimarkaður verður opinn og útitónleikar verða haldnir ásamt ótal mörgu fleiru. Sjá nánar á thorshofn.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×