Menning

Útivistarkort af Reykjanesi

"Hér á Reykjanesi höfum við náttúruperlur sem vert er að skoða og svæðið er ríkt af minjum og sögnum," segir Reynir Sveinsson, varaformaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Tilefnið er nýtt og glöggt útivistarkort af Reykjanesi. Það er gert upp úr loftmyndum og eru fjölmargar fornar gönguleiðir, gömul sel, hellar, veiðivötn og ýmis fleiri áhugaverð svæði merkt inn á. Kortið nær frá Herdísarvík í austri að Sandgerði í vestri; frá Grindavík í suðri til Kópavogs í norðri. Það er uppspretta fróðleiks um útivist á svæðinu. GPS er hnitað á kortinu þannig að hægt er að fylgja öllum leiðum nákvæmlega með GPS-tæki. Einnig verður það í stafrænu formi á netinu og hægt verður að kalla fram upplýsingar um einstaka staði í farsíma. Útivistarkortið eykur mjög öryggi fólks sem er á ferð um þessar slóðir. Bæði ætti það að koma í veg fyrir að fólk fari villur vegar og eins að nýtast björgunaraðilum við leitir. Í framtíðinni verður svo tengt ýmiskonar ítarefni inn á kortið á netinu. Allar upplýsingar verða inni á reykjanes.is.

Kortið er gefið út af Ferðamálasamtökum Suðurnesja í samvinnu við Loftmyndir ehf. Það er í kortaflokknum Af stað frá Loftmyndum.

6000 heimili á Suðurnesjum fá það að gjöf því eins og Reynir komst að orði: "...besta auglýsingin er sú að heimamenn séu ánægðir með svæðið sitt og láti aðra vita af því sem þar er í boði". Einnig verður kortið til sölu í bókabúðum og upplýsingamiðstöðvum, bæði brotið og óbrotið. Þetta ku vera eina kortið sem gert er nákvæmlega með þessum hætti í heiminum, þannig að Suðurnesjamenn eru sannir brautryðjendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×