Innlent

Eiginkonur kjósa ekki

Forsetaframbjóðendurnir þrír hafa auðvitað ekki hugmynd um hverjir kjósa þá og hverjir ekki. Eitt geta þeir þó allir verið vissir um, og það er að eiginkonur þeirra greiða þeim ekki atkvæði. Það er forvitinlegt að allar eiginkonur frambjóðendanna eru útlendingar og enginn þeirra hefur kosningarétt á Íslandi. Dorrit Mousaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar, er sem kunnugt er af gyðingaættum. Hún er fædd árið 1950. Dorrit er menntuð sem skartgripahönnuður og er umsvifamikil á því sviði, með sitt eigið fyrirtæki. Hún er breskur ríkisborgari og hefur því ekki kosningarétt, á Íslandi, þótt hún sé gift forseta landsins. Ólafur Ragnar segir að þau hafi ekkert íhugað að reyna að flýta því að Dorrit fái íslenskan ríkisborgararétt. Natalía Wium, eiginkona Ástþórs Magnússonar, er fædd í Rússlandi árið 1975. Hún hefur búið og unnið, á Íslandi, í þrjú ár. Natalía er menntuð sem lögfræðingur, í sínu heimalandi, en á Íslandi vinnur hún við umönnun aldraðra. Jean Plummer, eiginkona Baldurs Ágústssonar, er fædd í Bretlandi árið 1952. Hún lærði mannauðsstjórnun og gengdi stjórnunarstöðu í því fagi í breska heilbrigðiskerfinu. Hin síðari ár hefur hún verið að lesa sálfræði, og lagt stund á skriftir og listmálun. Semsagt, þrjú atkvæði sem frambjóðendurnir geta verið vissir um að fá ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×