Innlent

Siglingaþekking í andaslitrunum?

Siglingaþekking Íslendinga virðist vera í andaslitrunum. Í maí síðastliðnum var skrifað undir nýjan kjarasamning skipstjórnarmanna á kaupskipum og við atkvæðagreiðslu um samninginn kom í ljós að hugsanlega er um að ræða næst síðasta kjarasamning sem gerður er fyrir þessa atvinnugrein. Í yfirlýsingu frá Félagi skipstjórnarmanna segir að atkvæðagreiðslan hafi náð til sextíu og þriggja skipstjórnarmanna og að meðalaldur þeirra séu 54 ár. Þegar samningurinn rennur út verður stór hluti þessara manna hættur vegna aldurs en endurnýjun í gegnum Stýrimannaskólann er nánast engin. Félagið telur að innan fárra ára verði Íslendingar algjörlega háðir erlendum þjóðum með þekkingu til að sigla flutningaskipum. Þessi staða sé upp komin vegna 20 ára hirðuleysis um mikilvægi kaupskipaútgerðar. Á meðan hafi allar nágrannaþjóðir okkar barist með kjafti og klóm til að halda sínum hlut í kaupskipaútgerð vegna mikilvægis hennar í öryggis- og atvinnuhagsmunum þjóðanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×