Erlent

Misskilningi um hryðjuverk eytt

Yfirheyrslum nefndar um hryðjuverkin í New York ellefta september árið 2001 lýkur í dag. Nefndarmenn segja líklegt að niðurstöður nefndarinnar muni eyða útbreiddum misskilningi um hryðjuverkin. Meðal þess sem nefndarmenn segja að koma muni í ljós er að ekki hafi staðið til að bandarískar herflugvélar myndu skjóta niður farþegaflugvél ef með þyrfti. Einn nefndarmanna segir engar flugvélar hafa verið tilbúnar til slíks verks og fyrir því hafi verið margar ástæður, meðal annars lagalegar. Hann segir ýmsum goðsögnum um hryðjuverkin verða eytt þegar nefndin hafi lokið störfum sínum. Eitt af því sem fram hefur komið í rannsókn nefndarinnar er að engin tengsl séu eða hafi verið á milli Al-Qaeda og Íraka. Auk meintra gereyðingarvopna voru þessi tengsl einmitt ein af grundvallarforsendum innrásarinnar í Írak og því er talið að niðurstöður nefndarinnar séu að vissu leyti áfellisdómur yfir George Bush forseta Bandaríkjanna. John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata segir niðurstöður nefndarinnar sýna að bandaríkjastjórn hafi afvegaleitt þjóð sína og sagt henni ósatt um atburði og eigin fyrirætlanir. Í yfirlýsingum frá Hvíta húsinu segir hins vegar að niðurstöðurnar gangi ekki þvert á það sem Bandaríkjastjórn hafi sagt og í þeim felist alls enginn áfellisdómur yfir núverandi forseta. Hvað sem því líður hefur hópur fyrrverandi ríkiserindreka og herstjórnenda gefið frá sér yfirlýsingu þar sem því er haldið fram að utanríkisstjórn Bandaríkjanna hafi verið hroðaleg í tíð núverandi forseta og nauðsynlegt sé að nýr forseti taki við völdum í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×