Erlent

Stjórn­völd höfða mál á hendur Uber vegna mis­mununar gegn fötluðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bílstjórar Uber hafa verið sakaðir um að mismuna fötluðum einstaklingum.
Bílstjórar Uber hafa verið sakaðir um að mismuna fötluðum einstaklingum. Getty/LightRocket/SOPA/Marek Antoni Iwanczuk

Bandaríkjastjórn hefur höfðað mál á hendur Uber og saka bílstjóra fyrirtækisins um að mismuna fötluðum einstaklingum. Segja þau fötluðum oftsinnis neitað um far, til að mynda þegar þeim fylgja þjónustudýr eða hjálpartæki.

Stjórnvöld saka bílstjóra fyrirtækisins einnig um að rukka fatlaða farþega um þrifagjald þegar þeim fylgja þjónustudýr og um afbókunargjald þegar þeim er neitað um þjónustu.

Þá segir einnig að fötluðum sé oft sýnd lítilsvirðing og þeim sé stundum neitað um að sitja í framsætinu.

Dómsmálaráðuneytið segir framgöngu bílstjóra á vegum fyrirtækisins hafa valdið umræddum farþegum verulegum tilfinningalegum og fjárhagslegum skaða.

Talsmenn Uber neita ásökununum og segja fyrirtækið leggja metnað í það að þjónusta fatlaða farþega. Þá hafi fyrirtækið ekkert umburðarlyndi gagnvart því að einstaklingum sé neitað um far á grundvelli fötlunar.

Guardian fjallar um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×