Innlent

Risastór virkjun á Norðurlandi?

Forystumenn í Skagafirði vilja að raforka sem framleidd verður á Norðurlandi vestra verði nýtt til stóriðju á Brimnesi við Kolkuós og hafna því að hún verði nýtt til atvinnusköpunar utan héraðs. Viðræður eru að hefjast milli Landsvirkjunar og Skagfirðinga um að reisa eina stærstu virkjun landsins, Skatastaðavirkjun. Landsvirkjun vill beisla vötnin sem renna frá norðanverðum Hofsjökli til Skagafjarðar og hefur sótt um rannsóknarleyfi til iðnaðarráðherra. Hugmynd Landsvirkjunar er að virkja fallið við eyðibýlið Skatastaði í Austurdal. Virkjunin yrði svipuð Blönduvirkjun. Stórt miðlunarlón, Bugslón, yrði til á hálendinu en þaðan yrði vatninu veitt í göngum um tvö önnur lón að stöðvarhúsi sem yrði neðanjarðar við Skatastaði. Agnar Ólsen, framkvæmdasjtóri hjá Landsvirkjun, segir að virkjunin yrði með stærstu vatnsaflsvirkjunum á landinu, jafnvel upp í 180 megavött. Aðeins þrjár virkjanir yrðu stærri: við Kárahnjúka, Búrfell og Hrauneyjafoss. Agnar segir að ekki verði ráðist í virkjunarframkvæmdirnar nema stórkaupandi sé í spilinu því hún sé alltof stór fyrir almennan markað. Landsvirkjun hefur óskað eftir fundi með viðkomandi sveitarfélögum, Skagafirði og Akrahreppi, og er stefnt að viðræðum í kringum næstu mánaðamót. Ráðamenn í Skagafirði sjá fyrir sér að orkan verði nýtt til stóriðju á Brimnesi, sunnan Kolkuóss, en þar gera menn ráð fyrir lóð undir iðnaðarstarfsemi. Gísli Gunnarsson, forseti sveitarstjórnar í Skagafirði, segir að á Norðurlandi vestra hafi menn séð hvernig Blanda var virkjuð án þess að því fylgdi atvinnuuppbygging á svæðinu. Menn hafni því alfarið að aftur verði virkjað til að skapa atvinnu annarsstaðar. Nú vilji menn að orka frá Skatastaðavirkjun og Blöndvirkjun verði notuð á Norðurlandi vestra og þar sé álver einn kosturinn.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×