Innlent

Ráðstefna um málefni daufblindra

Félagsleg einangrun er eitt erfiðasta vandamálið sem daufblindir eiga við að stríða. Norræn ráðstefna um málefni þeirra er nú haldin í Reykjavík. Um eitthundrað og áttatíu manns frá öllum Norðurlöndunum sitja ráðstefnuna um málefni daufblindra í nútíma þjóðfélagi. Staða daufblindra er um margt sérstök, þeir þurfa að takast á við svo mörg mismunandi vandamál að hver einstaklingur þarf sérstaka aðstoð. Meðal þeirra sem sækja ráðstefnuna er Fjóla Björk Sigurðardóttir sem flutti þar erindi ásamt túlki sínum Lilju Ólöfu Þórhallsdóttur, daufblindraráðgjafa. Þær tala að hluta til saman með fingramáli inn í lófa hvor annarrar. Fjóla Björk segir að fötlun hennar sé svo mikil að hún geti ekki verið ánægð en þetta væri það sem hún þyrfti að kljást við. Sumt er sárara en annað og segir Fjóla Björk að hún sakni þess mest að geta ekki haft samskipti við fólk sem kunni ekki sína samskiptaaðferð. Hún segist þó nota tölvur við samskipti, bæði tölvupóst og msn.    Fjóla Björk er þó fjarri því að gefast upp og hætta eins og kom fram í því að hún skyldi treysta sér til þess að flytja erindi á ráðstefnunni í dag. Hún segist vona að henni muni ganga vel í lífinu og að hún eigi eftir að koma sér áfram í lífinu.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×