Innlent

Leynd yfir heimsókninni

Bill og Hillary Clinton koma hingað til lands á þriðjudaginn en ennþá virðist algjört leyndarmál hvað þau ætla sér að gera. Þingmannanefndin sem Hillary er í för með, ætlar hins vegar að kynna sér umhverfisvæna orku og hugmyndir um notkun vetnis hér á landi. Eftir að Stöð 2 greindi frá væntanlegri heimsókn Clinton-hjónanna og bandarískrar þingnefndar í gær er greinilegt að hálfgerð skelfing greip um sig á meðal þeirra sem af málinu vissu. Mikil leynd hefur hvílt yfir heimsókninni og til marks um það er sú staðreynd að margir mánuðir eru frá því að hún var skipulögð, en ekkert hefur kvisast út. Öryggisástæður eru sagðar ráða leyndinni þó að Ísland teljist reyndar eins öruggur áfangastaður og hugsast getur. Þingnefndin, með John McCain í fararbroddi, kemur til landsins á þriðjudagsmorguninn og heldur beint í Bláa lónið. Þar eru fundahöld og afslöppun á dagskrá en þingnefndin ætlar að kynna sér umhverfisvæna orku, og einkum hugmyndir um notkun vetnis hér á landi. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra býður svo til hádegisverðar áður en flestir þingmannanna halda heim á leið. Eftir verða, eins og við greindum frá í gær, hjónin Hillary og Bill Clinton sem ætla að dveljast hér í það minnsta til þriðjudagskvölds. Þau eru í einkaheimsókn en ætla samkvæmt heimildum fréttastofu að hitta einhverja að máli. Skrifstofur þeirra hafa ekki viljað gefa upp hvers eðlis fundir þeirra eru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×