Innlent

Fleiri strýtur hafa fundist

Hverastrýturnar á botni Eyjafjarðar eiga sér hvergi fyrirmynd í heiminum og hafa verið friðaðar. Fleiri strýtur fundust í firðinum í vikunni og þykir fundurinn renna stoðum undir þær kenningar að þar sé að finna öflugt lághitasvæði. Þessi einstöku náttúrufyrirbrigði fann Erlendur Bogason kafari fyrir tilviljun fyrir sex árum. Í júlí 2001 voru strýturnar tvær sem hann fann friðlýstar, en það þýðir meðal annars að togveiðar, netalagnir og línuveiðar eru bannaðar við þessi náttúruvætti. Í vikunni fundust fleiri hverastrýtur í botni Eyjafjarðar með aðstoð fjölgeislamælis Landhelgisgæslunnar. Bjarni Gautason, jarðfræðingur hjá íslenskum orkurannsóknum, segir að þetta sé væntanlega lághitavökvi sem kemur þarna upp líkt og víðar í Eyjafirði. Þetta vekji upp ýmsar spurningar um jarðhitann í Eyjavirði og hvernig hann breytist utar í firðinum. Hann segir mikinn áhuga vera á því að skoða þessi fyrirbrigði nánar til að athuga hvort meiri vökvi komi þarna upp, hversu mikill og hversu heitur. Þetta séu allt spurningar sem reynt verði að svara á næstu dögum. Bjarni telur alls ekki útilokað að það kunni að finnast fleiri hverastrýtur á borð við þessar annars staðar undan ströndum landsins. Það yrði í það minnsta spennandi verkefni að kortleggja grunnslóðina í kringum landið með fjölgeislamælum Landhelgisgæslunnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×