Innlent

Fartölvustuldur færist í vöxt

Þjófnaður á fartölvum færist í vöxt í upphafi skólaárs og beinir lögregla þeim tilmælum til fólks að skilja fartölvur sínar ekki eftir í mannlausum bílum. Í morgun var tveim fartölvum stolið í Reykjavík. Skólarnir fara senn af stað og eftirspurn eftir fartölvum er því mikil þessa dagana. Því miður versla ekki allir fartölvur sínar úr verslunum og þjófnaðir á fartölvum færast oft í vöxt á þessum árstíma. Snemma í morgun var rúmlega tvítugur maður handtekinn fyrir að brjótast inn í Kvennaskólann í Reykjavík og ræna þaðan fartölvu. Lögreglu barst tilkynning frá öryggisvörðum Securitas upp úr klukkan fimm, þar sem þeir sögðust vera á eftir manninum, sem þá hafði brotið rúðu í Kvennaskólanum og rænt þaðan fartölvu. Öryggisverðirnir misstu af manninum, en lögregla náði honum skömmu síðar í nágrenninu og handtók hann. Aðeins klukkutíma fyrr eða á fimmta tímanum var brotist inn um glugga í Vesturhlíð og stolið þaðan fartölvu, en ekki náðist í skottið á þeim innbrotsþjófi. Að sögn lögreglunnar í Reykjavík er þó ekki útilokað að sami maðurinn hafi verið að verki í báðum tilfellum, enda um mjög svipaða verknaði að ræða. Að sögn Ágústs Svanssonar, aðalvarðstjóra í lögreglunni í Reykjavík hefur maðurinn ekki enn verið yfirheyður, þar sem hann hefur sofið síðan hann var handtekinn. Ágúst segir að ekki sé óeðlilegt að ætla að fartölvuþjófnaðir færist í vöxt á þessum tíma árs, enda skólarnir að byrja og eftirspurn eftir tölvunum mikil. Hann bendir þeim tilmælum til fólks að skilja ekki fartölvur sínar eftir í mannlausum bílum eða á öðrum stöðum þar sem óprúttnir náungar geti komist yfir þær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×