Innlent

Óttast ekki framtíðina

Vopnfirðingar óttast ekki framtíðina þótt útgerðarrisinn HB-Grandi við Faxaflóa sé að kaupa útgerðarfyrirtækið Tanga, en atvinnulíf bæjarins og afkoma snýst um fyrirtækið. Stjórnir HB-Granda, Tanga á Vopnafirði og Svans í Reykjavík samþykktu allar samruna félaganna inn í HB- Granda í gær og bíða þessar ákvarðanir nú hluthafafunda. HB-Grandi eykur þar með enn forskot sitt sem stærsta útvegsfyrirtæki hér á landi í kvótum talið. Efnahagsreikningur félagsins stækkar við þetta um rúmlega fjóra og hálfan milljarð og verður rúmlega 26,5 milljarðar króna. Hagur Vopnafjarðarhrepps, sem var ráðandi hluthafi í Tanga, vænkast um leið til muna og skip HB-Granda munu í vaxandi mæli landa á Vopnafirði, einkum uppsjávarfiski, þannig að atvinna ætti að verða jafnari þar. Sveitarfélagið og einstakir heimamenn lögðu allt undir í fyrra þegar ráðist var í kaup á hlut Eskju í Tanga til að styrkja stöðu Tanga í heimahögum, en einmitt þau kaup reyndust svo forsendan fyrir samrunanum við HB Granda. HB Grandi á meðal annars nokkur öflug fjölveiðiskip, auk fjölveiðiskips Tanga, en mun styttra er á kolmunna og síldarmið frá Vopnafirði en frá Faxaflóa. Þar að auki er loðnuveiðin oft mest fyrir austan land. Bræðsla og fiskiðjuver Tanga liggja því mjög vel við þessum miðum. Efnahagur Vopnafjarðarhrepps var á mörkum þess að lenda í gjörgæslu félagsmálaráðuneytisins en með sölunni snýst dæmið nú við og efnahagur sveitarfélagsins verður góður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×