Innlent

Stórbruni í Ólafsvík

Fiskverkunarhúsið Klumba í Ólafsvík brann til kaldra kola í fyrrinótt. Talið er að tjónið nemi um 100 milljónum króna. Um 25 manns unnu hjá vinnslunni. Ævar Sveinsson, rekstrarstjóri Klumbu, segir brunann áfall. "Við erum að horfa á rústirnar og átta okkur á þessu. Við erum að leita eftir störfum fyrir starfsfólkið í öðrum fiskverkunarhúsum í bænum," segir Ævar. Klumba er í eigu Leifs Halldórssonar og tveggja sona hans. Ævar segir þá stefna í að byggja upp fyrirtækið aftur. Það hafi verið tryggt en tjónið sé gríðarlegt. "Svo framarlega sem við getum fjármagnað nýtt fyrirtæki er hugur í eigendunum að byggja það upp aftur," segir Ævar. Í fiskverkunarhúsinu fór fram marningsvinnsla og þurrkun fisks. Þar er einnig lítið frystihús. Húsið var um 2.000 fermetrar að stærð. "Húsið var fullt af birgðum. Það var allt klárt og vinnsla í fullum gangi og birgðir fyrir næstu viku tilbúnar. Eins var fiskur í geymslu," segir Ævar: "Við þurfum að vera fljótir að snúa okkur við og hefja rekstur aftur svo viðskiptasambönd okkar skaðist ekki." Ævar segir að talið sé að eldurinn hafi átt upptök sín í rafmagnskatli. Lögreglan í Ólafsvík hefur málið til rannsóknar og segir eldsupptök ekki ljós. Málið sé í rannsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×