Innlent

Allt stefnir í verkfall

Allt útlit er fyrir að verkfall grunnskólakennara skelli á eftir rúman sólarhring. Samninganefndir hafa setið á fundi í allan dag. Menntamálaráðherra óttast að skelli verkfall á, verði það langvinnt. Stífar samningaviðræður hafa verið í kennaradeilunni hjá ríkissáttasemjara undanfarna daga. Fundur stóð til klukkan 11 í gærkvöldi og klukkan hálf níu í morgun komu skólastjórar í Karphúsið og kennarar laust eftir klukkan níu. Fundir hafa staðið sleitulaust síðan. Að sögn Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara eru engin merki um að samningar séu í sjónmáli, en menn séu engu að síður enn að tala saman. Hann býst við að fundur standi frameftir kvöldi sem og að stíft verði fundað um helgina. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, segist bjartsýn að eðlisfari og voni að deilan leysist, en fari svo að verkfall skelli á, óttist hún að það geti orðið langvinnt. Hún segist aðeins hafa heyrt í kennurum og þeir séu brattir og séu tilbúnir í langt verkfall, sem sé afar slæmt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×