Innlent

Bruni í Klumba

Um tvö hundruð milljóna króna tjón varð þegar fisksverkunin Klumba á Ólafsvík gjöreyðilagðist í eldi í nótt. Tuttugu og fimm manns misstu vinnuna, sem er um einn tíundi vinnandi fólks á Ólafsvík. Eigendur stefna ótrauðir að því að byggja fyrirtækið upp aftur. Brunavarnir í húsinu voru ófullnægjandi miðað við nútímakröfur. Klukkan hálf tvö í nótt tilkynnti vegfarandi um eld í húsinu, en þar fór fram hausaþurrkun, slökkvilið kom á staðinn aðeins nokkrum mínútum seinna, en fljótlega var ljóst að við ekkert varð ráðið, enda breiddist eldurinn út með ógnarhraða. Jón Þór Lúðvíksson, slökkviðliðsstjóri, segir hraða eldsins hafa verið svo mikinn að slökkviliðsmennirnir hafi hreinlega ekki þorað upp á þak. Allt hafi orðið alelda á svipstundu og ekkert hafi verið við ráðið. Slökkviliðsmenn voru enn að slökkva í glæðum í dag, og telja að þess vegna geti logað í þeim í nokkra daga í viðbót. Húsnæðið fullnægði ekki nútíma eldvarnarkröfum, enda engin eldvarnarhólf í húsinu né eldvarnarhurðir. Því breiddist eldurinn svo hratt út. Gerðar höfðu verið athugasemdir, en engar áminningar veittar. Jón segir að yfirleitt séu ekki gerðar verulegar athugasemdir á meðan allt gangi snurðulaust fyrir sig og því hafi ekkert verið að gert. Í eldsvoðanum brann niður á nokkrum stundum fimmtán ára uppbyggingarstarf. Leifur Magnússon, framkvæmdastjóri og einn eiganda Klumba, var vakinn upp með hringingu um miðja nótt, og slík hringing þýddi aðeins eitt, að eitthvað slæmt væri á seyði. Hann segist strax hafa áttað sig á að eitthvað mikið væri að. Leifur segir verksmiðjuna hafa verið þokkalega tryggða. Hann treysti sér ekki enn sem komið er til að meta hversu mikið tjónið er. Þó sé ljóst að það sé yfir eitt hundrað milljónir króna. Ekki aðeins varð stórtjón í eldsvoðanum, því bruninn er líka mikil blóðtaka fyrir atvinnulífið á staðnum. Lætur nærri að hér hafi tíu prósent vinnandi manna í Ólafsvík misst vinnuna, en þar er fyrir nánast ekkert atvinnuleysi. Leifur segist munu greiða starfsfólki sínu laun eitthvað áfram, og er ákveðinn í því að byggja starfsemina upp aftur. Hann segir að þrátt fyrir að hann sé ekkert unglamb muni hann halda áfram að gera eitthvað, fyrir sig og fólkið í bænum. Bæjarstjóri Ólafsvíkur segist himinlifandi yfir þessum yfirlýsingum Leifs, og um leið bjartsýnn á að atvinnuleysi fólksins verði aðeins tímabundið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×