Innlent

Á spítala eftir rafstuð

Drengur á sautjánda ári frá Selfossi var í gær fluttur á Barnaspítala Hringsins með hjartsláttartruflanir eftir að jafnaldrar hans tóku í sundur einnota myndavél og gáfu honum rafstuð. Fikt með einnota myndavélar er orðið algengt meðal unglinga og getur það reynst stórhættulegt að sögn lögreglu.  Drengurinn var útskrifaður í morgun og var líðan hans þá orðin góð. Atvikið bar að með þeim hætti að jafnaldrar drengsins, unglingar á aldrinum 16-17 ára, gáfu honum rafstuð í hálsinn eftir að hafa tengt flass á einnota myndavél þannig að hægt væri að gefa með því stuð. Lögreglan á Selfossi segir mikið mildi að ekki hafi farið verr, enda geti athæfi af þessu tagi verið hættuleg, sérstaklega ef þeir sem fyrir stuðinu verða eru veikir fyrir. Að sögn lögreglunnar er tilvikið ekki einsdæmi og hefur fréttastofan heimildir fyrir því að þetta myndavélabrölt sé nú stundað af mörgum unglingum. Ungir viðmælendur sem fréttastofan ræddi við í dag og höfðu fengið rafstuð úr einnota myndavél, sögðust einfaldlega telja að um fikt og leik væri að ræða og eflaust áttuðu þeir sem þetta stunduðu sig ekki á hættunni sem því kynni að fylgja. Þær gætu þó sjálfar vottað um það að straumurinn væri mjög mikill og ylli miklum sársauka. Ekki er vitað nákvæmlega hve sterkur strumurinn úr rafstuði af þessu tagi er, en líklega er hann þó miklu meiri en úr til að mynda stuðkylfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×