Innlent

Fagnar sýrufundi

"Fagnaðarefni að efnið hafi náðst," segir Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, um mikið magn af LSD sem náðist í síðustu viku og maður um þrítugt hefur verið úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald út af. Þórarinn segir LSD fundinn ekki valda miklum áhyggjum en hefði gert það ef efnið hefði fundist til dæmis í Reykjavíkur og búið væri að selja mikið af því. LSD komst í tísku á hippatímanum en síðan dró verulega úr notkun þess þar til bakslag var og neysla jókst upp úr 1990 með tilkomu dansskemmtistaða. Þórarinn segir verulega hafa dregið úr neyslu efnisins síðustu þrjú til fjögur árin. Helst sé það notað af fólki sem er undir eftirliti, sérstaklega í fangelsum, því efnið finnst ekki í þvagi. Þó verði fólk yfirleitt ekki LSD neytendur að neinu ráði þar sem efnið hafi ekki sömu ánetjunaráhrif og önnur fíkniefni. Heldur sé LSD notað með annarri fíkniefnaneyslu. Þórarinn segir efnið valda miklum skynbreytingum og það sé með höppum og glöppum hve lengi ástandið varir. Mörg vandamál geti fylgt neyslunni sem endi jafnvel með innlögn á geðdeild. Skammtur af LSD er á svipuðu verði og e-tafla eða um 2500 krónur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×