Innlent

Túnfiskveiðar í vísindaskyni

Fimm japönsk túnfiskveiðiskip hafa veitt innan landhelgi Íslands í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina í ár. Í athugun er gegnd fisksins á Íslandsmiðum og veiðanleiki. Droplaug Ólafsdóttir, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnuninni, segir veiðarnar nýhafnar. Þær verði stundaðar út október. Túnfiskveiðar hafi verið stundaðar frá 1996 í vísindaskyni. Veiðst hafi heldur minna undanfarin ár en árin 1997 og 1998 sem voru metár. "Aflinn er lítill og veiðiskapurinn annar en var áður. Innan við tíu fiskar í veiðitúr er mjög algengt. Verðið er hins vegar mjög gott og þess vegna borga veiðarnar sig," segir Droplaug. Hún segir að meðan engin íslensk skip sýni áhuga á miðunum innan landhelginnar verði unnið með Japönum. Sveinn Rúnar Valgeirsson, skipstjóri á Kap VE frá Vestmannaeyjum, var áður útgerðarstjóri túnfisksskipsins Byrs VE sem hefur verið selt úr landi. Sveinn hyggur á túnfiksveiðar í samstarfi við kanadískt fyrirtæki og bíður eftir leyfum kanadískra stjórnvalda til veiða á Flæmingjagrunni. Sveinn segir engan grundvöll fyrir veiðunum nema í samstarfi við útlendinga sem hafi tækin til þeirra. Of dýrt sé að halda úti skipum og erfitt að fara út í breytingar á þeim fyrir einungis rúmlega tveggja mánaða veiðitíma



Fleiri fréttir

Sjá meira


×