Innlent

Báðir hafa játað

Salvar Halldór Björnsson, sem ákærður er ásamt Sigurjóni Gunnsteinssyni fyrir innflutning á tæpum 325 grömmum af kókaíni, játaði við fyrirtöku málsins í gær að hafa flutt inn þau 166 grömm af kókaíni sem fundust innvortis í honum. Sigurjón og Salvar voru teknir með efnin á Keflavíkurflugvelli annan desember á síðasta ári. Salvar játaði einnig tollalagabrot þar sem hann greiddi ekki toll af 45 boxhönskum og þremur höfuðhlífum, samtals að verðmæti um 85 þúsund krónur. Sagðist hann hafa staðið einn að þeim innflutningi en Sigurjón var einnig ákærður fyrir sama brot. Fallið var frá ákæru vegna tollalagabrotsins á hendur Sigurjóni eftir játningu Salvars. Við þingfestingu málsins í ágúst játaði Sigurjón innflutning á rúmum 159 grömmum af kókaíni. Rúm 110 grömm fundust í endaþarmi og rúm 49 grömm fundu tollverðir í sokkum hans. Báðir segja að kókaínið hafi þeir ætlað að nota sjálfir en ekki ætlað að selja það. Þá segjast þeir báðir aðeins hafa átt og staðið að innflutningi á þeim efnum sem þeir báru hvor um sig. Aðalmeðferð málsins verður í lok nóvember.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×