Innlent

Fréttablaðið styrkir sig í sessi

Fréttablaðið er sá fjölmiðill sem flestir landsmenn nota, það er mest lesna dagblað landsins og nýtur yfirburða í öllum aldursflokkum, alla daga vikunnar. Samkvæmt nýrri könnun Gallups lesa 69 prósent landsmanna Fréttablaðið á hverjum degi. 51 prósent les Morgunblaðið og 17 prósent DV. Er þá miðað við meðallestur en lesturinn er mismunandi eftir dögum. Lestur Fréttablaðsins og Morgunblaðsins er sá sami og var í síðustu könnun Gallups, sem gerð var í maí, en færri lesa DV nú en í vor. Mestur mældist lestur Fréttablaðsins á miðvikudegi, 76 prósent, en minnstur á sunnudegi, 62 prósent. Lestur Morgunblaðsins mældist mestur á föstudegi, 51 prósent, en minnstur á mánudegi, 48 prósent. Lestur DV var 16 prósent fjóra daga vikunnar en 21 prósent á laugardegi. Lestur Fréttablaðsins á höfuðborgarsvæðinu mældist nú tæp 74 prósent og á landsbyggðinni rúm 62 prósent. Morgunblaðið var lesið af tæpum 59 prósentum íbúa höfuðborgarsvæðisins og 37 prósentum íbúa landsbyggðarinnar. Lestur DV er svipaður á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Samkvæmt þessu hefur Fréttablaðið fest sig enn í sessi sem vinsælasti fjölmiðill landsins. Það er sama hvar borið er niður, alls staðar nýtur blaðið yfirburða og sumstaðar mikilla. Þegar öllum helstu fjölmiðlum landsins er stillt upp hlið við hlið og notkun þeirra borin saman er Sjónvarpið í öðru sæti, líkt og í könnuninni í maí. Morgunblaðið er í þriðja sæti, hefur sætaskipti við Stöð 2 og helgast breytingin af talsvert minna áhorfi á Stöð 2. Rás 2, Bylgjan og Skjár einn koma í næstu sætum og þar á eftir Rás 1 og DV. Lestur Fréttablaðsins er mestur meðal fimmtugs fólks og eldra, 76 prósent. 65 prósent fólks á þeim aldri lesa Morgunblaðið og 19 prósent DV. 72 prósent landsmanna á aldrinum 25 til 49 ára lesa Fréttablaðið, 50 prósent Morgunblaðið og 19 prósent DV. Sé yngsti hópurinn, 12 til 24 ára, skoðaður má sjá að lestur Fréttablaðsins er 53 prósent, 33 prósent lesa Morgunblaðið og 11 prósent DV. Könnun Gallups var dagbókarkönnun og var gerð dagana 11. til 17. ágúst. Í úrtaki voru 1.200 manns á aldrinum 12 til 80 ára, valdir með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá. Eftir að látnir, veikir og fjarverandi höfðu verið dregnir frá var endanlegt úrtak 1.129 manns. Svarendur voru 664 eða tæp 60 prósent endanlegs úrtaks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×