Innlent

Helstu deilumál verið afgreidd

"Nú er fiskveiðistefnan komin í eitt kerfi, stærstu deilumálin hafa verið afgreidd og nú er tími til að horfa til framtíðar," segir Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra. Hann hélt tölu um sjávarútveginn á Íslandi á opnum stjórnmálafundi í Hornafirði í vikunni og sagðist þar ekki vita um neina aðra þjóð í heiminum þar sem útgerð væri rekin með þeim myndarskap sem væri hérlendis og á því ætti að byggja næstu áratugi. "Staða sjávarútvegs á Íslandi breytist afar hratt og við megum ekki eyða kröftum okkar lengur í deilur og sundurlyndi. Nú þarf að standa saman að því að vinna út á við og jafnframt bæta innviði sjávarútvegsins. Það er búið að leysa helstu deilur og við þurfum allra síst á því að halda að búin séu til ný deilumál." Árni bendir á að innan sjávarútvegsráðuneytisins sé þegar farið að vinna að nýjum verkefnum sem tengjast breyttu umhverfi útvegsins í framtíðinni. "Setja þarf skýrar siðareglur í sjávarútvegi sem tengjast til dæmis umhverfismálum og Íslendingar hafa einmitt verið leiðandi í þeirri umræðu og nú þarf að klára það. Við erum framarlega eins og sakir standa og nú þarf að sækja enn harðar fram og vinna saman að því en ekki sundur eins og hefur stundum verið raunin."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×