Innlent

Cherie Blair á Íslandi

Cherie Blair, eiginkona Tonys Blairs forsætisráðherra Breta, kom hingað til lands í dag ásamt fjögurra ára syni þeirra hjóna. Hún flytur erindi á málstofunni Konur, völd og lög sem fram fer á morgun, og segist sjálf eiga í fullu fangi með að takast á við hlutverk móðurinnar, eiginkonunnar og lögfræðingsins. Ekki var það einkaþota sem flutti Cherie Blair yfir hafið, eins og Bill Clinton, heldur lét hún sér nægja áætlunarflug Icelandair. Yngsti sonur Blair hjónanna, hinn fjögurra ára gamli Leo, er í för með móður sinni, sem bað um að engar myndir væru teknar af drengnum. Cherie ætti ekki að eiga í vandræðum með að tala út frá persónulegri reynslu í erindi sínu á málstofunni á morgun. Hún er einn þekktasti lögmaður Bretlands, rekur lögmannsstofu sem sérhæfir sig í mannréttindamálum, er forsætisráðherrafrú og fjögurra barna móðir. Cherie segist ætla að ræða um jafnvægið milli vinnu og einkalífs og hvernig eigi að ná því réttu. Hún segir þó að oftast mistakist fólki og einnig henni. Stíf dagskrá bíður Cherie. Málstofa á morgun og svo mun hún opna listasýningu á Akureyri á laugardag ásamt breska sendiherranum. Á sunnudag fær hún tækifæri til að kynnast landinu ögn betur í hans fylgd, áður en hún heldur heim á mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×