Innlent

Mest 700 metrar í vagninn

Með nýju leiðakerfi strætisvagna Reykjavíkur sem tekið verður í notkun seint í haust þurfa þeir sem lengst ganga að fara um 700 metra leið að næsta strætóskýli. Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir útreikninga sýna að þrátt fyrir þetta verði fólk fljótara á áfangastað. Hann segir þrjú viðmið notuð til að ákvarða hvar staðsetja eigi strætóskýli. "Þar sem byggð er þétt og háhýsi mörg miðum við við 300 metra hámarksgöngu íbúa. Þar sem eru raðhús og þriggja hæða hús og lægri er viðmiðið á bilinu þrjú til fimm hundruð metrar og í strjálbýlustu hverfunum, sem eru helst einbýlishúsahverfi, er hámarkið á bilinu fimm til sjö hundruð metrar," segir Ásgeir og minnir á að þarna sé um hámarksviðmið að ræða. Ásgeir segir eflingu almenningssamgangna gegnumgangandi þráð í nýja leiðakerfinu. Í fyrsta sinn verði horft á höfuðborgarsvæðið sem heild og leiðir vagnanna skipulagðar út frá því. "Til að við getum eflt almenningssamgöngur þurfum við fyrst og fremst að ná til nýrra notenda. Við einblínum ekki á ákveðna hópa í samfélaginu heldur reynum að búa til almenningssamgöngur í orðsins fyllstu merkingu sem henta almenningi. Við reynum að búa til kerfi sem getur verið raunhæfur valkostur þannig að þegar fólk tekur ákvörðun um hvernig það ætli að ferðast þann daginn eigi það í raun val um annað en að setjast inn í bílinn sinn." Með nýju kerfi verður þeim leiðum sem strætisvagnarnir aka fækkað úr 35 í 19. Ásgeir segir eknum kílómetrum ekki fækka og ef vel gangi þurfi að fjölga starfsfólki. Hann segir þorra leiðanna 19 verða hraðleiðir sem gangi eftir stofnbrautakerfi og verði fljótfarnari en aðrar strætóleiðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×