Innlent

Árni útilokar lagasetningu

"Stjórnvöld hafa engar fyrirætlanir um að grípa inn í kjaraviðræður Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þeir verða að leysa deiluna sjálfir," segir Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra. Hann segir það ekki skipta eins miklu máli nú og áður skili tekjur sjávarútvegsins sér ekki til þjóðarbúsins í einhverja mánuði. Árni segir ástæðuna vera að efnahagslífið hafi breyst. Velta á gengismarkaði sé miklu meiri en áður og gengi krónunnar ráðist af öðrum þáttum en árið 2001 þegar lög hafi verið sett á verkfall sjómanna. Allar ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins hafi verið teknar með almannahagsmuni að leiðarljósi. Árni segir alrangt að útvegsmann hafi gengið á sinn fund og óskað eftir lögum á verkfall sjómanna. "Útvegsmenn hafa aldrei beðið í mín eyru að lög yrðu sett á verkfall sjómanna. Þvert á móti þá hafa þeir verið á móti því. Reyndar eins og sjómenn; þeir hafa ekki beðið um það heldur og verið á móti lagasetningu." Sævar Gunnarsson, formaður SSÍ, veit ekki hvort hann eigi að taka meira mark á orðum sjávarútvegsráðherra nú frekar en við síðustu kjaraviðræður."Ég sé ekki annað en hann sé kominn í sama farið og um árið og dragi dilk útvegsmanna." Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, tekur undir orð sjávarútvegsráðherra. "Kjaradeilurnar verða ekki leystar með lögum. Það höfum við alltaf sagt og það hefur ekkert breyst. " Sjómenn og útvegsmann sömdu síðast sín á milli árið 1995. Ekki miðaði áfram í kjaraviðræðum þeirra á fundi ríkissáttasemjara í gær. Næsti fundur verður á mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×