Innlent

Vinna liggur enn niðri

Hættuástand skapaðist við Kárahnjúkavirkjun í gærkvöldi þegar vatn úr Jöklu fór að streyma í gegnum varnarstífluna sem á að verja vinnusvæðið ofan í gljúfrinu. Starfsmenn yfirgáfu svæðið í skyndingu og liggur vinna enn niðri vegna vatnsaga. Nokkru síðar var þar orðið fjögurra metra djúpt vatn. Varnarstíflan á að beina vatni Jöklu að hjáveitugöngum en þau anna ekki vatnsflæðinu þannig að uppistöðulón hefur myndast. Öllum tiltækum stórvirkum vinnuvélum var beitt og tókst að stöðva lekann áður en garðurinn rofnaði en hætta var á því þar sem svo mikið vatn rann í gegnum hann. Engan starfsmann sakaði en áfram er unnið hörðum höndum við að styrkja garðinn og er verið að leita að dælum um allt land til viðbótar þeim sem ekki hafa undan við að dæla vatni af vinnusvæðinu. Þá fór brúin yfir Jöklu, sem laskaðist talsvert í flóðinu í fyrradag, á bólakaf. Hún virðist ekki hafa skemmst meira en orðið var enda var búið að skrúfa af henni öll vegrið þannig að íshrönglið safnaðist ekki fyrir við hana eins og í fyrrakvöld. Þegar líða tók á kvöldið fór aftur að sjatna í ánni en búist er við talsverðu flóði í kvöld og jafnvel enn meiri flóðum um helgina, ef veðurspáin gengur eftir. Þetta mun vera eitthvert mesta flóð í ánni í áratugi og áfram er spáð hlýindum þannig að verktakar á svæðinu gera fastlega ráð fyrir flóði í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×