Innlent

Frumvarpið ekki afturkallað

Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar Alþingis segir að ekki hafi komið til tals að afturkalla fjölmiðlafrumvarpið nýja sem er til umfjöllunar í nefndinni. Hann segir að unnið sé af fullum heilindum í málinu. Bjarni Benediktsson segist ekki telja að það beri að afturkalla málið þrátt fyrir andstöðu í þjóðfélaginu. Hann segir að svipuð andstaða hafi verið í vor í könnunum en þegar hefði verið athugað hve margir hefðu kynnt sér málið efnislega hefði það verið mjög lágt hlutfall þeirra sem afstöðu tóku. Stjórnarflokkarnir tapa fylgi og Bjarni Benediktsson segist ekki neita því að þetta sé umdeilt mál. Það vanti þó tilfinnanlega efnislega umræðu um þær breytingar sem hafi orðið á frumvarpinu. Hann bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn sé nærri kjörfylgi þrátt fyrir allt og Framsóknarflokkurinn eigi samkvæmt reynslunni eftir að sækja í sig veðrið. Hann segir nefndina vera í miðjum klíðum að vinna að málinu. Kallað hafi verið eftir ólíkum sjónarmiðum og komið hafi fram mismunandi lögfræðiálit og vinnunni sé ekki lokið. Ekki sé hægt að segja nú hvaða stefnu málið tekur á endanum. Hann telur þó vel tækt að fella fjölmiðlalögin brott eins og hefur verið gert og jafnframt að setja ný lög. Enda telur hann óeðlilegt að Alþingi geti einungis fellt lög brott en ekki sett ný í staðin. Hann telur alls ekki að verið sé að ganga fram hjá þeirri staðreynd að forsetinn sé hluti af löggjafarvaldinu, enda fari þessi lög eins og öll önnur fyrir forseta til staðfestingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×