Innlent

Hitametið slegið víða um land

Hitamet í ágúst var slegið í dag. Tuttugu og níu stig voru í Skaftafelli og á Þingvöllum. Í höfuðborginni flúði fólk unnvörpum úr vinnunni og út í sólina.  Metið sem slegið var var frá árinu 1976 en þá mældist hitinn 27,7 stig á Akureyri. Mælar Veðurstofunnar víða um land slógu það met út í dag. Mestur var hitinn í Skaftafelli, 29,1 stig, og 29 stiga hiti mældist á Þingvöllum og Árnesi. Mælar á Hjarðarlandi, Mývatni, Egilsstöðum, Hæli í Hreppum, Húsafelli og Hallormsstað slógu fyrra met einnig út. En hvað sem öllum metum líður þá var aldrei þessu vant nær ómögulegt að óskapast út í veðrið, en auðvitað mátti finna að því að hitinn skellur á í byrjun vinnuviku.  Sundlaugar voru yfirfullar og í miðbænum kom fólk saman og margir drukku eitthvað sterkara en malt. Fæstir vildu þó útskýra fyrir alþjóð hvernig hægt sé að komast upp með að sleikja sólina á miðjum vinnudegi, nema einn ungur maður, Sindri Páll Kjartansson, sem flatmagaði á Austurvelli. Hann sagðist bara ekki vinna neitt - eða vera í fríi ... Þeir sem ekki eru komnir út á vinnumarkaðinn voru áhyggjulausir og alsælir. Jóhann Páll Einarsson, 6 ára, sagði það skemmtilegasta við góða veðrið vera að geta hlaupið hratt og leikið sér. Þórunn Dís Halldórsdóttir, 6 ára, sagðist vera minna þreytt þegar sólin skini heldur en þegar veðrið væri síðra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×