Innlent

Mikill þurrkur á Austurlandi

"Þetta er mun meiri þurrkur en venjulega ," segir Freysteinn Sigurðsson hjá Orkustofnun en lítið sem ekkert hefur rignt í sumar frá Þistilsfirði austur á Fljótsdalshérað. Freysteinn segir þetta valda því að gróður spretti illa og skrælni auk þess sem vatnsból á stöku bóndabæjum eða í sumarhúsum gætu tæmst. Lítið vatn er í lækjum og sprænum. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður, var í Þistilfirði í síðustu viku og sagði þurrkinn hafa sett mark á gróður, rof hefði myndast víða í jarðveg og gras sölnað. Hins vegar hafi margir heyjað snemma í ár og því ekki beðið mikils skaða. Hann kannaðist þó ekki við vatnsskort á bæjum á svæðinu. Freysteinn segir að töluverða rigningu þurfi til að koma ástandinu í samt lag. "Það myndi koma aftur í vatnsbólin ef það rigndi í viku en ef þetta á að vera viðvarandi þyrfti að rigna lengur." Ekki er búist við úrkomu á næstunni á þessu svæði samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×