Innlent

Vatnsból víða þurr

Á meðan jökulár bólgna vegna mikillar bráðnunar jökla í hlýindunum þessa dagana eru vatnsból sumstaðar orðin þurr og vatn farið að skorta vegna þurrka. Aðeins tíu mínútna regnskúr hefur til dæmis gert á átján daga langan leiðangur hestamanna þvert yfir landið. Brunnar og önnur vatnsból eru víða orðin þurr á norðausturhorninu eins og á Bakkafirði og Vopnafirði. Vatnsskortur er orðinn á bæjum sem ekki hafa vatnsveitur sem byggðar eru á borholum. Sama er uppi á teningnum í Árneshreppi á Ströndum, á stöku stað í Skagafirði og jafnvel í Borgarfirði. Víða hefur ekki rignt í fleiri daga, lækir hafa víða alveg þornað og sumar ár eru orðnar mjög vatnslitlar. Þurrkurinn er með þeim ólíkindum að nítján manna hópur hestamanna, sem lagði af stað frá Fonti á Langanesi 25. júlí og hefur því verið átján daga á ferðalagi, hefur aðeins fengið á sig tíu mínútna rengskúr að sögn Finns Ingólfssonar, eins leiðangursmanna. Hópurinn er nú kominn niður í Ölfus á leið til Krísuvíkur og hefur lagt um 760 kílómetra að baki og hefur ekkert slæmt hent knapa eða þá sextíu reiðskjóta sem þeir hafa til reiðar. Hópurinn endar þessa einstöku 800 kílómetra ferð á Reykjanestá annað kvöld. Myndin er frá Kleifarvatni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×