Innlent

Skriður féllu á Múlaveg

Nokkrar stórar skriður féllu á Múlaveg á milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar snemma í morgun. Talið er að sú stærsta hafi verið um fimmtíu metra breið. Til mikillar mildi hafði lögreglan lokað veginum um klukkan hálf fimm í nótt vegna mikillar rigningar, skömmu áður en skriðan féll. Ekki er enn búið að opna veginn, en stórt skarð kom í hann nokkur hundruð metra frá munna Múlaganga, Dalvíkurmegin. Þá féll skriða inn á golfvöllinn í Ólafsfirði og olli þar skemmdum. Almannavarnanefnd Ólafsfjarðar kom saman til fundar síðdegis í dag. Ástríður Grímsdóttir, sýslumaður, segir að nefndin hafi skoðað hlíðina fyrir ofan bæinn og komist að þeirri niðurstöðu að þar væri ekki hætta á aurskriðu. Hins vegar kunni að falla aurskriður úr Kleifarhorni og Ósbrekkufjalli, en bænum stendur ekki hætta af þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×