Innlent

Eldsupptök talin vera í reykstæði

Eldur kviknaði í fjárhúsi á Ögmundarstöðum, sem eru rétt sunnan við Sauðárkrók, á tólfta tímanum í fyrrakvöld. Eldtungur stóðu út úr austurgafli fjárhússins þegar lögregla kom á vettvang. Ekki var annað en reiðtygi og timbur í húsinu sem er ónýtt eftir brunann. Slökkvistarfi lauk rétt fyrir klukkan fjögur um nóttina en rífa þurfti þak hússins af með krana þar sem það var mikið brunnið og ekki þótti hægt að senda menn upp á þakið. Einangrun þaksins var þurrkaður mór og þurfti að tryggja að ekki yrði glóð eftir í þakinu. Eldurinn komst ekki í hlöðu sem er áföst fjárhúsinu en útveggir hennar eru steyptir. Ekki er nákvæmlega vitað hver eldsupptök voru en athyglin beinist að reykstæði í fjárhúsinu sem bóndinn hefur notað til fjölda ára við að reykja fisk og kjöt. Ljóst er að eldsupptök voru í námunda við reykstæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×