Innlent

Dorrit ríður um Brandenborgarhliðið

Jakob Bjarnar skrifar
Hin fræga mynd sem Gunnar Andrésson ljósmyndari tók, af Dorrit stumra yfir Ólafi Ragnar Grímssyni þá er hann hafði dottið af hestbaki. Þetta var í tilhugalífi forsetahjónanna.
Hin fræga mynd sem Gunnar Andrésson ljósmyndari tók, af Dorrit stumra yfir Ólafi Ragnar Grímssyni þá er hann hafði dottið af hestbaki. Þetta var í tilhugalífi forsetahjónanna. GVA
Setningarathöfn Heimsmeistaramóts íslenska hestsins fer fram á sunnudag og þá mun Dorrit Moussaieff, forsetafrú, ríða í gegnum Brandenborgarhliðið í Berlín ásamt hópreið íslenskra gæðinga sem fara í gegnum miðborgina að mótsvæðinu.

Opnunarhátíð mótsins verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport, sem hefst klukkan 13:00 á sunnudaginn að íslenskum tíma. Stöð 2 Sport hefur tryggt sér útsendingarréttinn en mótið verður haldið í Berlín í Þýskalandi dagana 4. - 11. ágúst. Verður Stöð 2 Sport með beinar útsendingar frá mótinu alla keppnisdagana og samantektarþætti á kvöldin. Þetta mun verða í fyrsta skipti sem Heimsmeistaramóti íslenska hestsins verður sjónvarpað í heild sinni í beinni útsendingu með íslenskum lýsingum.

Glæsilega fáka mun bera fyrir augu á Heimsmeistaramótinu. Stöð 2 Sport mun greina frá málum.
Er þetta í fyrsta sinn sem mótið er haldið í miðri stórborg. Mikill áhugi er fyrir mótinu, bæði á Íslandi og meðal aðdáenda og eigenda íslenskra hesta um víða veröld. Um tvö þúsund Íslendingar hafa pantað sér miða á mótið en reiknað er með þrjátíu þúsund áhorfendum á mótinu.

Íslenskir hestar frá 15 löndum munu taka þátt í heimsmeistaramótinu í Berlín en alls eru 163 þátttakendur skráðir til leiks, þar á meðal 8 fyrrverandi heimsmeistarar. Á heimsmeistaramótinu eru sjö keppnisgreinar; tölt, slaktaumatölt, fjórgangur, fimmgangur, gæðingaskeið, 250 metra skeið og 100 metra flugskeið. Þá munu 44 kynbótahross hljóta dóm í kynbótasýningu.

Auk beinna útsendinga verða samantektarþættir á hverju kvöldi þar sem farið verður yfir hápunkta dagsins og sýnd eru viðtöl við keppnisknapa og gesti mótsins. Að mótinu loknu verða vikulegir þættir á dagskrá í ágúst mánuði, þar sem fjallað verður um mótið og mannlífið í kringum það.  Viðtöl við keppnisknapa íslenska landsliðsins, þjálfara og aðstandendur.

Telma Tómasson, Logi Laxdal og Steindór Guðmundsson munu hafa umsjón með íslenskum lýsingum frá Heimsmeistaramóti íslenska hestsins á Stöð 2 sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×