Innlent

Alþjóðleg gagnrýni á öryggið á Kárahnjúkum

Síðast varð alvarlegt vinnuslys á Kárahnjúkum þann 26. nóvember þegar kínverskur verkamaður féll 40-50 metra.
Síðast varð alvarlegt vinnuslys á Kárahnjúkum þann 26. nóvember þegar kínverskur verkamaður féll 40-50 metra. MYND/Gunnar V. Andrésson

Stíflusérfræðingar gagnrýna öryggiskröfur við framkvæmdirnar við Kárahnjúkastífluna. Varaforseti Alþjóðaráðsins um stórar stíflur segist hafa unnið við stífluframkvæmdir um allan heim en aldrei hafi orðið dauðsfall við stífluframkvæmdir þar sem hann hafi unnið. Þetta kemur fram í blaði samtaka breskra byggingarverkfræðinga.

Fjórir hafa látist síðan framkvæmdir hófust á Kárahnjúkum snemma árs 2003, síðasta dauðsfallið varð í síðasta mánuði. Þar að auki hefur nokkur fjöldi starfsmanna Impregilo slasast alvarlega við framkvæmdirnar.

"Ég hef unnið við stífluframkvæmdir alls staðar í heiminum og hvergi nokkurs staðar hefur einhver látist á framkvæmdastöðunum. Að svona mörg atvik verði á einum stað er ekki algengt," segir Dr. Andy Hughes, varaforseti Alþjóðaráðsins um stórar stíflur, í samtali við vefmiðil blaðsins New Civil Engineer.

Fulltrúar Landsvirkjunar, sem og Impregilo, neituðu í samtali við blaðið öllum ásökunum. Ekki náðist í Sigurð Arnalds, talsmann Landsvirkjunar á Kárahnjúkum í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×