Fleiri fréttir

HIV-smitaður í 17 ár

Fyrrverandi menningarmálaráðherra í stjórn Tonys Blair, Chris Smith, upplýsti í samtali við Sunday Times í gær að hann hefði verið HIV-smitaður í 17 ár. Smith, sem er 53 ára, sagðist ekki hafa greint Blair frá þessu árið 1997 þegar hann varð fyrsti ráðherrann í Bretlandi til að opinbera samkynhneigð sína.

16 sóttir til saka

16 manns hefur verið stefnt fyrir dómstóla í Frakklandi vegna eldsvoða í Mont Blanc-göngunum árið 1999. Eldsvoðinn varð 39 manns að bana. Sakborningar eru ákærðir fyrir manndráp og sækjendur munu fara fram á sektir og allt að þriggja ára fangelsi. Búist er við að réttarhöldin taki að minnsta kosti þrjá mánuði, en undirbúningur hefur staðið í fjögur og hálft ár.

Málefnin ekki í forgrunni

Rúm vika er þar til þingkosningar verða haldnar í Danmörku. Skoðanakannanir sýna að stjórnarflokkarnir haldi meirihluta sínum. Íraksstríðið hefur ekki orðið að kosningamáli. </font /></b />

Bardagar í Kúveit

Nokkrir lögreglumenn og uppreisnarmenn hafa fallið í valinn í byssubardögum í Kúveit í morgun. Til átaka kom í suðurhluta landsins þar sem lögreglumenn leituðu níu uppreisnarmanna. Bardagarnir standa enn og því talið líklegt að fleiri eigi eftir að falla.

Úrslit eftir átta til tíu daga

Talning atkvæða eftir þingkosningar í Írak er hafin en ekki er búist við að úrslit kosninganna liggi fyrir fyrr en eftir átta til tíu daga. Flest bendir til þess að sameinuð hreyfing sjíta sem framfylgir stefnu trúarleiðtogans Alis al-Sistanis beri sigur úr býtum.

Flugvél hrapaði í Írak

Talið er að á milli tíu og fimmtán breskir hermenn hafi látið lífið í gærkvöldi þegar bresk hergagnaflugvél hrapaði norður af Bagdad. Ekki er ljóst hvað olli slysinu en varnarmálaráðuneyti Bretlands rannsakar nú tildrög þess. Skilyrði voru öll með besta móti auk þess sem vélar af þessu tagi hafa hingað til þótt mjög öruggar.

Rússar njósna um Bandaríkin

Rússneskir njósnarar í Bandaríkjunum eru ekki færri um þessar mundir en sovéskir njósnarar í landinu á tímum kalda stríðsins, að mati háttsettra embættismanna innan bandarísku leyniþjónustunnar. Frá þessu greinir tímaritið Time.

Segja flugskeyti hafa grandað vél

Nú liggur fyrir að fimmtán fórust þegar bresk Hercules-fraktflutningavél hrapaði nærri Bagdad í gær. Brak úr vélinni dreifðist yfir yfir stórt svæði og leikur grunur á að flugskeyti uppreisnarmanna hafi grandað vélinni. Sérfræðingar segja allt benda til þess, með hliðsjón af því hvernig brakið dreifðist, og íslamskur öfgahópur kveðst hafa skotið vélina niður.

Fiskvín í Kína

Svo lengi sem menn muna hefur áfengi verið framleitt með einhverjum hætti. Frakkar nota vínber, Rússar kartöflur og Mexíkóar nota kaktus við tekílaframleiðslu svo að fáein dæmi séu nefnd. En aðferðir Kínverja vekja athygli en ekki endilega þorsta. Kínverskur nýsköpunarfrömuður hefur kynnt fiskvín, það er að segja vín sem framleitt er með því að hreinsa og sjóða fisk og láta hann svo gerjast.

Meiddust í flugi yfir Íslandi

Nokkrir farþegar meiddust um borð í flugvél SAS-flugfélagsins þegar hún lenti í illviðri yfir Íslandi á laugardag á leið sinni frá New York til Kaupmannahafnar. Verdens Gang hefur það eftir farþegum að vélin hafi fyrst hækkað sig skyndilega en síðan falið um 200 metra þannig að allt fór úr skorðum í farþegarýminu.

Háttsettur al-Qaida liði gripinn

Öryggissveitir í Kúveit handsömuðu í morgun háttsettan al-Qaida liða. Handtakan fylgdi í kjölfar átaka þar sem fimm al-Qaida liðar féllu. Auk Amers al-Enezi, sem er sagður meðal æðstu manna í al-Qaida, voru þrír aðrir félagar í samtökunum handsamaðir. Heimildarmenn Reuters segja öryggissveitir enn á hælunum á ellefu al-Qaida liðum til viðbótar.

Sigur kemur með starfhæfri stjórn

Írakar sýndu uppreisnar- og hryðjuverkamönnum í tvo heimana með því að streyma á kjörstaði þrátt fyrir hótanir og árásir. Kosningarnar í gær þykja marka tímamót en sigurinn er þó ekki sagður í hendi fyrr en starfhæfri stjórn hefur verið komið á laggirnar.

Rússarnir koma til Bandaríkjanna

Fjöldi rússneskra njósnara í Bandaríkjunum er nú í það minnsta jafn mikill og á tímum Kalda stríðsins og það þrátt fyrir að Rússland sé minna og máttlausara ríki en gömlu Sovétríkin. <em>Rússarnir koma</em> segir í fyrirsögn fréttatímaritsins <em>TIME</em> sem kemur út í dag og skyldi engan undra.

Ekki talað um þjóðarmorð í Darfur

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um mannréttindabrot í Darfur-héraði í Súdan er nú tilbúin en hefur ekki verið gerð opinber enn þá. Utanríkisráðherra Súdans segir hins vegar að ríkisstjórn hans hafi fengið skýrsluna í hendur og þar sé orðið þjóðarmorð ekki notað yfir árásirnar á íbúa héraðsins. Sú skilgreining skiptir miklu máli því ef sagt væri að um þjóðarmorð væri að ræða væru Sameinuðu þjóðirnar skyldugar að grípa í taumana.

45 mafíósar handteknir

Ítalska lögreglan handtók í dag fjörutíu og fimm mafíósa í bænum Catania á Sikiley. Glæpamennirnir eru sakaðir um mannrán, fjárkúgun og stórfellda fíkniefnasölu. Aðgerðir lögreglu beindust gegn svokallaðri Santapaola-fjölskyldu en með hjálp ýmissa aðila telur lögreglan á Sikiley sig nú geta sannað að fjölskyldan hafi staðið á bak við umfangsmikla kókaínsölu ásamt mannránum og fjárkúgun á árunum 1989-1995.

Bófi reyndist vera saklaus drengur

Lögreglan í Sandefjord í Noregi var kölluð út þegar sást til manns með lambhúshettu í bíl við Torp-flugvöllinn. Löreglumenn, gráir fyrir járnum, þustu á vettvang og hugðust handsama manninn en í ljós kom að hinn ægilegi hryðjuverkamaður var tólf ára gamall drengur sem hafði leiðst að bíða í bílnum meðan foreldrar hans voru inni í flughöfninni að taka á móti gesti.

Herréttur brýtur gegn stjórnarskrá

Héraðsdómari í Bandaríkjunum úrskurðaði í dag að herrétturinn yfir grunuðum hryðjuverkamönnum í herstöðinni við Guantanamo-flóa á Kúbu bryti gegn stjórnarskránni. Joyce Hens Green dómari úrskurðaði einnig að fangarnir nytu verndar bandarísku stjórnarskrárinnar.

Volvo fyrir rétt í Frakklandi

Volvo-verksmiðjurnar sænsku eru meðal margra fyrirtækja og einstaklinga sem komu fyrir rétt í Frakklandi í dag vegna eldsvoðans í jarðgöngunum undir Mont Blanc árið 1999. Þrjátíu og níu manns fórust í brunanum. Saksóknarinn heldur því fram að galli í vél Volvo-flutningabíls hafi valdið olíuleka sem leiddi til þess að eldurinn kviknaði.

Hamas-samtökin hefna 10 ára telpu

Hamas-samtökin skutu fimm vörpusprengjum á ísraelska landnemabyggð í dag eftir að tíu ára palestínsk telpa féll í skothríð ísraelskra hermanna. Engan sakaði í sprengjuárásinni. Samtökin segja að frekari hefndaraðgerðir ráðist af viðbrögðum Ísraelsmanna. Ísraelska herstjórnin kveðst ekki vita til þess að hermenn hennar hafi átt í nokkrum átökum á þeim stað sem telpan dó.

Myndband af árás á flugvél?

Arabíska sjónvarpsstöðin Al Jazeera sýndi í dag myndbandsupptöku þar sem hryðjuverkamenn skjóta eldflaug á loft. Því er haldið fram að eldflaugin hafi grandað breskri fjögurra hreyfla Hercules-herflutningavél í Írak á sunnudag. Á myndbandinu sést sprenging í fjarska eftir að flauginni er skotið á loft og svo eru einnig myndir sem virðast sýna brak úr flugvél á jörðinni.

Útilokar ekki annað framboð

Demókratinn John Kerry hefur ekki gefið frá sér möguleikann að gefa kost á sér í forsetakosningunum 2008. Kerry hefur verið áberandi í viðtölum og á ferðalögum að undanförnu og reynir að halda þeirri stöðu sem hann náði í síðustu kosningunum.

Fær lausn gegn tryggingu

Palestínskur maður sem grunaður er um tengsl við Osama bin Laden fær lausn úr fangelsi gegn tryggingu meðan mál hans er til rannsóknar. Hann er einn ellefu útlendinga sem hefur verið haldið í breskum fangelsum um þriggja ára skeið án þess að vera birt ákæra.

Ísraelar taka jarðir eignarnámi

Ísraelsk stjórnvöld hafa ákveðið að taka land palestínskra flóttamanna nærri Jerúsalem eignarnámi án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Ákvörðunin hefur fallið í grýttan jarðveg; ríkissaksóknari Ísraels fyrirskipaði rannsókn á henni og Bandaríkjastjórn hefur hvatt Ísraela til að falla frá áformunum.

Fuglaflensa breiðist enn út

Yfirvöld í Víetnam óttast að óvenjumörg tilfelli fuglaflensu í fólki að undanförnu séu til marks um að sjúkdómurinn sé að blossa upp á ný eftir að hafa verið í rénun í flestum þeirra ríkja Asíu þar sem hans varð vart í fyrra.

Brúðkaup vinsæl á flugvellinum

Brúðhjón voru gefin saman á Arlanda-alþjóðaflugvellinum við Stokkhólm nær hvern dag síðasta árs að meðaltali. Alls voru 348 brúðhjón gefin saman og er það þrjátíu prósentum meira en árið áður, þegar 261 par gekk í hnapphelduna á flugvellinum.

Íhuga þarf refsiaðgerðir

"Alvarleg brot gegn alþjóðlegum mannúðarlögum og stórtæk brot gegn mannréttindum hafa átt sér stað. Þetta má ekki viðgangast," sagði Kofi Annan, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, um stöðu mála í Darfur. Hann sagði að öryggisráðið verði að íhuga beitingu refsiaðgerða gegn Súdan vegna ástandsins.

Stjórnarskrárbrot í Guantanamo

Þeir fangar í Guantanamo sem þess óska geta kært vist sína þar til almennra dómstóla í Bandaríkjunum. Þannig hljóðar úrskurður bandarísks alríkisdómara sem kvað upp úr um lögmæti þess að stjórnvöld halda föngum sem tengjast al-Kaída og Talibönum án dóms og laga í herstöð á Guantanamo á Kúbu.

Staða súnnía dregur úr bjartsýni

Iyad Allawi forsætisráðherra Íraks segir kosningarnar á sunnudag hafa sýnt fram á að hryðjuverkamenn muni aldrei fagna sigri. Lítil kjörsókn súnní-múslima veldur hins vegar áhyggjum um takmarkað lögmæti stjórnlagaþingsins. </font /></b />

Klúbbaðild borgar sig

Bókaútgefendur í Danmörku mega selja bækur mun ódýrar í bókaklúbbum en til bóksala. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar neytenda þar í landi, en bókaforlögin Gyldendal og Den Danske Forlæggerforening höfðu verið kærð til samkeppnisráðs. 

Segja kosningar í Írak sigur

Sigur er það orð sem vestrænir og írakskir stjórnmálamenn nota til að lýsa kosningunum í Írak í gær. Nú bíður nýrra leiðtoga það verk að byggja upp lýðræðislegt stjórnkerfi og koma í veg fyrir sundrung.

Róttækir hástökkvarar

Venstre og Radikale Venstre eru þeir flokkar sem bæta hvað mest við sig fylgi, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallup. Skoðanakannanir birtast nú daglega fyrir þingkosningarnar í Danmörku.

Hillary féll í ómegin

Öldungardeildarþingmaðurinn Hillary Clinton hneig niður í gær, eftir að hafa kvartað undan magakveisu áður en hún hélt áætlaða ræðu um almannatryggingar.

Cox á móti Hillary

Edward Cox, tengdasonur Richards Nixon, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, íhugar að bjóða sig fram á móti Hillary Clinton í kosningum til öldungardeildar þingsins á næsta ári.

Sex árásir á kjörstaði

Sex sjálfsmorðssprengjuárásir hafa verið gerðar á kjörstaði í Írak í morgun og hefur töluverður mannfjöldi farist í árásunum. Litlar fregnir hafa borist af kjörsókn en forseti Íraks sagði í gær að hann teldi líklegt að hún yrði lítil.

Lögreglumaður lést í skotbardaga

Að minnsta kosti þrír létust, þar af einn lögreglumaður, í skotbardaga á milli skæruliða og lögreglu í Kúveit í dag. Fjórir lögreglumenn og einn skæruliði særðust að auki. Átökin áttu sér stað í kjölfar þess að lögreglan réðist til atlögu á leynilegan stað skæruliðanna en þeir eru taldir tengjast al-Kaída samtökunum.

Stór loforð jafnaðarmanna

Danskir jafnaðarmenn freista þess að ná til kvenna á ný með því að lofa opinberum starfsmönnum að enginn þeirra missi vinnuna næstu fjögur árin. Í gær var sagt frá því að níu af hverjum tíu, sem hafa yfirgefið danska Jafnaðarmannaflokkinn í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar, væru konur.

Kosningarnar blóði drifnar

Ekki færri en tuttugu og tveir liggja í valnum eftir röð árása á kjörstaði í Írak í morgun. Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í landinu eru blóði drifnar.

Flóðbylgjan refsing guðs

Flóðbylgjan í Asíu var refsing guðs fyrir siðspillingu. Þessu er haldið fram í leiðara íslamsks dagblaðs í Marokkó.

Skref í friðarátt

Leiðtogafundur verður haldinn fyrir botni Miðjarðarhafs eftir hálfan mánuð. Þá hittast Mahmoud Abbas og Ariel Sharon til friðarviðræðna. Þetta er í fyrsta sinn sem fundur af þessu tagi er haldinn í meira en eitt og hálft ár.

Sprenging á spænsku hóteli

Sprengja sprakk á hóteli á Spáni fyrir stundu og særðust tveir í sprengingunni. Sprengingin varð í bænum Denia á Suðaustur-Spáni. Lögreglumenn þar segja að viðvörun hafi borist basknesku dagblaði skömmu áður. Talið er að ETA, aðskilnaðarsamtök herskárra Baska, beri ábyrgð á sprengingunni.

Bresk vél fórst í Írak

Bresk vöruflutningavél af gerðinni C-130 Herkúles fórst norðvestur af Bagdad fyrr í dag. Brak úr vélinni hefur dreifst yfir stórt svæði að sögn sjónarvotta sem tilkynntu bresku sjónvarpsstöðinni Sky um málið.

Kjörsókn framar vonum

Kjörstöðum í Írak var lokað klukkan tvö í dag og svo virðist sem kjörsókn hafi farið fram úr björtustu vonum manna. Yfirkjörstjórn Íraks skýrði frá því að 72 prósent kjörgengra Íraka hafi kosið og fólk beið enn í biðröðum þegar kjörstöðum var lokað. Líklegt er að öllum þeim sem komnir voru á kjörstaði fyrir lokun verði leyft að kjósa.

Heimsmet í snjókasti

Það er gott að hafa metnað en spurningin er hvernig menn fá útrás fyrir hann. Í Illinois í Bandaríkjunum var til að mynda efnt til heimsmeistarakeppni í snjókasti um helgina. Skipuleggjendur segja daginn merkisdag og að metið hafi verið slegið þar sem vel yfir 3000 manns tóku þátt í snjóboltaslag sem stóð í tíu mínútur.

Flugu aftur inn um gluggann

Jóhannes Páll páfi hugðist ásamt tveimur börnum sleppa hvítum dúfum út um glugga á íbúð sinni í Páfagarði í gær, en dúfurnar vildu ekki út í kuldann sem hefur ríkt í Róm undanfarið og flugu aftur inn í hlýjuna.

Íran ógn við Mið-Austurlönd

John Bolton, öryggis- og afvopnunarmálafulltrúi í bandarísku stjórninni, sagði á fundi í Barein í vikunni að löndum í Mið-Austurlöndum stafaði veruleg hætta af kjarnorkuvopnaeign Írana.

Sjá næstu 50 fréttir